5147
Fallbraut fíkilsins
Fallbraut fíkilsins
Fallbraut fíkilsins er mörkuð nokkrum hættumerkjum.
* Hugsvik eru algeng, þú ferð í afneitun.
* Færð þér stærri skammta á diskinn.
* Þú ert svangur, þótt maginn sé fullur. Þú ert sísvangur.
* Hugur þinn snýst ekki um annað en næstu máltíð.
* Þú ferð að borða seint á kvöldin.
* Þú tekur sætindi og kökur fram yfir grænmeti og ávexti.
* Þú ferð að moka smjöri á brauðið.
* Tímasetningar á málsverðum framlengjast og verða óljósar.
* Þú hættir fráhaldi að hluta, hleypir til dæmis sætu kexi inn fyrir dyr.
Ef þú finnur fyrir slíkum merkjum um fallbraut, er kominn tíminn til að taka til hendinni og efla fráhaldið.
Aðdragandi að græðgisáti
* Ef þú dettur í græðgisát, er það ekki upphafið að fallbraut þinni, heldur lokastigið.
* Löngu áður eiga vísbendingar að vera farnar að birtast í lífi þínu og matarvenjum.
Þær koma hægt og sígandi, ekki eins og sprenging.
Hún kemur seinna á fallbrautinni.
Hvenær sem er á þeirri braut hefur þú tækifæri til að stinga við fótum.
Taktu því vel eftir merkjum um afneitun þína, um of stóra matarskammta, um svengd eftir máltíð og um sísvengd.
Fylgstu með matarhegðun þinni og máltíðum í stóru og smáu.
Farðu nákvæmlega yfir fráhald þitt í heild og finndu út, hvort það er að bila á einhverju afmörkuðu sviði.
Viðvörunarljós í hvelli
Einn af kostum matardagbókar er, hversu fljótt hún sýnir viðvörunarljósin.
Sé hún heiðarlega færð, sýnir hún þér strax, hvenær þú byrjar að ramba út af sporinu.
* Sýnir, hvar fyrsti pakkinn af súkkulaðibitakexi kemur til sögunnar eftir langt fráhald.
* Sýnir, hvenær þú byrjaði að fá þér bita fyrir svefninn.
* Sýnir, að þú ert farinn að grípa súkkulaðikex við kassann í Krónunni.
* Sýnir, að kleinurnar tvær, sem þú sporðrenndir í gær, eru samtals 500 kaloríur og setja lífsmynztrið úr skorðum.
* Matardagbókin er færð í tölum með niðurstöðu fyrir hvern dag.
Hún truflar möguleika þína á afneitun augljósra staðreynda.
Sykursýkisvandi
Ef þú átt við insúlínvanda að stríða, er mikilvægt að borða oft og á föstum tímum.
Frestist máltíð, er gott að hafa við hendina snakk, sem ekki veldur aukinni svengd.
* Heppilegt biðsnarl er ávöxtur með ostsneið.
* Byrjaðu hvern dag á borðhaldi, áður en þú færð þér kaffi og slepptu helzt kaffinu alveg.
* Hafðu prótein innifalið í morgunverðinum.
* Reyndu að fá þér súpu í forrétt í hádegi eða að kvöldi, hún hefur mild áhrif á insúlín-magnið.
* Borðaðu ekki alltaf sama matinn, heldur breyttu til frá degi til dags.
Fjölbreytt fæða dregur úr líkum á ofáti eins réttar.
* Vertu í góðu sambandi við sérfræðing.
Þrengja svigrúmið
Aðild að OA, GSA og FAA virkar að sumu leyti eins og aðild að skipulagi á borð við kaloríutalningu og matardagbók.
Hvort tveggja þrengir svigrúm fíknarinnar.
* Sá, sem áætlar neyzlu sína og heldur skrá um hana, sér hvenær hann er að fara út af sporinu.
* Sá, sem tekur þátt í OA-fundum, hlustar á frásögur annarra, lærir að þekkja aðvörunarljós, sem blikka á fallbrautinni.
* Saman er þetta mjög gott, en ekki fullnægjandi.
* Til viðbótar þarftu að sjá ljósið, sjá léttu, ljúfu leiðina.
* Hún felst í að öðlast hlutleysi gagnvart mat.
* Að öðlast þvílíka hugarró, að matur skipti þig engu sérstöku máli.
Fallbraut fíkilsins