Vormenn að verki.

Greinar

Ein efnilegasta atvinnugreinin á Íslandi er fiskeldi. Það hefur eflzt hröðum skrefum undanfarin ár. Einkum er það dýrmætur laxinn, sem hefur orðið viðfangsefni. Og næstur honum að mikilvægi kemur regnbogasilungur.

Fiskeldi hefur mótazt á annan hátt en loðdýrarækt, þar sem áherzla hefur verið lögð á fremur lítil fjölskyldubú, eins konar vísitölubú. Fiskeldið er hins vegar stundað í stórum stöðvum með miklum stofnkostnaði.

Báðar atvinnugreinarnar eru einkar viðkvæmar. Ekkert má út af bera í fóðri og hreinlæti, ef reksturinn á að ganga vel. Mörg dæmi eru um, að stórtjón hafi orðið. Í loðdýrarækt hafa sum bú hreinlega hætt rekstri af þeim völdum.

Hinir smáu loðdýraræktendur þurfa mjög að treysta á aðvífandi þekkingu opinberra kennara og ráðunauta. Fiskiræktendur eru hins vegar nógu stórir í sniðum til að hafa þekkinguna innan ramma fyrirtækjanna sjálfra.

Í fiskeldinu eru ýmsar sérgreinar. Sumir einbeita sér að ræktun seiða, sem síðan eru seld til annarra stöðva, er rækta fiskinn upp í slátrunarstærð. Enn aðrar stöðvar stunda ekki eldi, heldur treysta á hafbeit.

Gamalkunnugt er framtak Laxalónsmanna, sem hafa selt seiði innanlands og til útlanda. Þeir hafa nú hazlað sér völl í Vestmannaeyjum og í Dölunum, þar sem þeir hafa stofnað hafbeitarfélagið Dalalax með heimamönnum.

Margra ára reynsla er einnig komin á hafbeit Lárósmanna á Snæfellsnesi. Svipaðar landfræðilegar aðstæður hafa verið notaðar af Tungulaxmönnum og norskum samstarfsaðilum þeirra í Lóni í Kelduhverfi og verða fljótlega víðar.

Sérstæðari er laxaræktin á Húsatóftum við Grindavík, þar sem fiskurinn er fóðraður upp í slátrunarstærð uppi á landi, í upphituðum og yfirbyggðum eldiskvíum. Þar er um að ræða einkaframtak ungs vísindamanns.

Þannig fara menn ýmsar leiðir við að hagnýta sér aðstæður. Þær geta verið fólgnar í ódýru fóðri frá fiskvinnslustöðvum, jarðhita og lónum við sjávarstrendur, svo að dæmi séu nefnd. Þær gera fiskeldið arðbært.

Meðan við sportveiðum aðeins 300 tonn af laxi á ári, veiða nágrannaþjóðirnar um 8.000 tonn af honum í hafinu og Norðmenn ala sjálfir upp um 15.000 tonn í eldiskvíum. Af þessu má sjá, hve mikill er markaðurinn fyrir lax.

Norðmenn munu í ár hafa 3.800 milljón íslenzkra króna gjaldeyristekjur af laxi frá 400 eldisstöðvum og ætla að koma tekjunum upp í 5.700 milljón krónur árið 1985. Þeir eru þegar búnir að gera þetta að stóriðju.

Enn hefur ekkert komið fram um, að markaður fyrir lax sé að mettast í heiminum. Hins vegar má vera ljóst, að framleiðsluaukning Norðmanna getur fyrr eða síðar leitt til verðlækkunar, sem við þurfum að reikna með.

Ef til vill eigum við líka möguleika í sjóbirtingi og silungi, þótt laxinn sé það, sem markaðurinn heimtar um þessar mundir. Og aðrir fiskar geta síðar komið til greina. Í Noregi hafa 115 fyrirtæki sótt um þorskeldisleyfi.

Fjöldi Íslendinga hefur af dugnaði, hugviti og þekkingu gengið fram fyrir skjöldu í fiskeldi. Það starf er nú smám saman að bera árangur í vel þegnum gjaldeyristekjum á erfiðum tíma. Þar eru vormenn okkar að verki.

Jónas Kristjánsson.

DV