Efnið þið heldur loforðin.

Greinar

Skynsamlegt er að hverfa frá ráðagerðum um nýja húsnæðislánavísitölu, sem á að létta byrðar húsbyggjenda. Í staðinn ber að fara aðrar og stórvirkari leiðir að sama markmiði, jafnvel þótt þær festi mun meira fé.

Í ríkisstjórninni eru þegar á kreiki efasemdir í garð hinnar nýju vísitölu. Ennfremur hafa stjórnir Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja mótmælt henni og hvatt flokkana fremur til að efna kosningaloforð.

Núverandi lánskjaravísitala er að tveimur þriðju vísitala framfærslu og að einum þriðja byggingarkostnaðar. Ráðgerð húsnæðislánavísitala átti að hafa einn þriðja af hverri, vísitölu kaupgjalds, framfærslu og byggingakostnaðar.

Þegar kaup hækkar mun minna en framfærslukostnaður, hækkar síðari vísitalan minna en hin fyrri. Misræmið milli tekna og húsnæðislánavísitölu er þá minna en misræmið milli tekna og lánskjaravísitölu. Afborganir verða léttari.

Þetta snýst hins vegar við, ef lífskjörin í landinu taka að batna á nýjan leik, svo sem endanlega er stefnt að í hinum harkalegu aðgerðum stjórnvalda í efnahagsmálum. Þá verður nýja vísitalan erfiðari en hin gamla.

Gangi efnahagsdæmi ríkisstjórnarinnar upp, er hin ráðgerða húsnæðislánavísitala raunar einkar skammgóður vermir. Áhrif hennar geta verið orðin neikvæð þegar um næstu áramót, húsbyggjendum til hrellingar.

Fleiri vankantar eru á þessari vísitölu. Einn er sá, að hún mundi aðeins nýtast í lánum Húsnæðisstofnunar ríkisins og hugsanlega lífeyrissjóðanna, meðan bankarnir yrðu að nota gömlu vísitöluna til að verja sparifjáreigendur.

Þar ofan á gætir lánskjaravísitalan ekki aðeins hagsmuna sparifjáreigenda, heldur tryggir bönkunum einnig meira sparifé til útlána en ella væri. Fólk sparar meira, þegar fé í bönkum brennur ekki í verðbólgunni.

Þetta hefur mátt sjá á undanförnum árum. Þegar vextir hafa verið mjög neikvæðir, hefur sparifé sogazt úr bönkunum og sumpart verið notað í óþarfa hluti. Við jákvæða raunvexti hefur sparifé hins vegar hlaðizt upp.

Þjóðfélagið í heild og húsbyggjendur sérstaklega þurfa á því að halda, að aflögufært fólk geti með árangri sparað fé sitt í stað þess að verja því til umframneyzlu eða fjárfestingar í hlutum, sem það getur verið án.

Blómlegur sparnaður í þjóðfélaginu er einmitt helzta forsenda þess að leysa megi núverandi vandræði húsbyggjenda á raunhæfan hátt, – með því að auka lánin og lengja þau, svo sem stjórnmálaflokkarnir hafa lofað.

Það kann ekki góðri lukku að stýra, þegar minnihluti forréttinda fær 90% lánað til 42 ára með 0,5% raunvöxtum, en allur þorri manna fær aðeins lánað 20% til 26 ára með 2,25% raunvöxtum. Þetta drepur sjálfsbjargarviðleitnina.

Við núverandi aðstæður getur ungt fólk ekki eignazt þak yfir höfuðið, nema það sé í hinu félagslega forréttindakerfi verkamannabústaða. Þann mun þarf að afnema með almennu kerfi 80% lána til 40 ára með 2,25% raunvöxtum.

Þetta kostar auðvitað gífurlegt fé. En þessu hafa stjórnmálaflokkarnir raunar lofað hver í kapp við annan. Þeir skulda ungu kynslóðinni þetta loforð. Og þeir geta efnt það með því að taka upp viturlega stefnu í fjárskuldbindingum.

Jónas Kristjánsson.

DV