Hveitibrauðsdagar ríkisstjórnarinnar verða engir. Voru raunar búnir, áður en hún fæddist formlega í gærkvöldi. Stjórnarsáttmálinn hlaut slæmar viðtökur í netheimum strax í gær. Hefðbundnir fjölmiðlar verða að vísu til friðs fram eftir sumri, enda hallir undir Sjálfstæðisflokkinn. En völd þeirra eru minni en áður var. Frumkvæði í pólitík hefur flutzt frá fjölmiðlum til fámiðla á veraldarvefnum. Sjálf stjórnarandstaðan er dösuð í bili, en mun vakna til lífs á sumarþinginu. Fámiðlar munu lemja hana til verka. Verður að vísu ekki eins grimm og sú síðasta, en minni ofsi jafngildir ekki hveitibrauðsdögum.