Stjórnarsáttmálinn sýnir, að stjórnarflokkarnir efna ekki kosningaloforðin. Enda voru sum þau háværustu svo mikið út úr kú, að ekki er hægt að efna þau. Eru og verða óuppgert mál milli Framsóknar og trúgjarnra kjósenda hennar. Margir eru samt fegnir, hversu varfærinn sáttmálinn er að þessu leyti. Minni líkur en ella eru á, að ríkisstjórnin leggist í óra, sem skaða ríkisfjárhag. Seinkun verður á ýmsum gæluverkum stjórnmálanna, svo sem nýjum landsspítala og vegagöngum gegnum fjöll. Og stóriðjuofsinn er minni en margir ætluðu, enda lítið lánsfé að hafa og alltof dýrt. Tómur ríkiskassi temprar æðibunu.