Ég er eindregið andvígur nýrri byggð á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni eins og raunar allri þéttingu byggðar. Tel hana valda þrengslum í samgönguæðum og skaða lífsgæði fólks, sem býr við svæðið. Mér leiðist að vísu flugvöllurinn og vildi helzt endurheimta mýrina gömlu. Sjaldgæft er að hafa aðgang að opnu og meira eða minna villtu svæði í miðbæ höfuðborgar. Í stóru landi, þar sem fyrirsjáanlegur íbúafjöldi fer ekki yfir hálfa milljón, er óþarfi að byggja þétt. Nema þá fyrir það fólk, sem vill búa í kös. Það getur búið þétt á nýju svæði, svo sem í Geldinganesi. En látið ofsóttan miðbæ Reykjavíkur í friði.