Mörg er matarholan ósnert

Greinar

Þrefaldur vandi steðjar að ríkisstjórninni í tilraunum hennar við að koma frá sér skynsamlegum frumvörpum til fjárlaga og lánsfjáráætlunar. Ólíklegt er, að henni takist þetta nema með róttæku hugarfari niðurskurðar.

Einn vandinn er, að í eindaga er komið að stöðva frekari útþenslu ríkisbáknsins, sem orðin er öðrum aðilum þjóðarbúsins óbærileg, bæði almenningi og fyrirtækjum. Nú er ekki seinna vænna fyrir ríkið að taka sig á eins og aðrir.

Annar vandinn er, að í eindaga er komið að stöðva frekari stækkun skuldasúpu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum, sem farin er að stefna efnahagslegu sjálfstæði okkar í voða. Þetta takmarkar svigrúm lánsfjáráætlunar.

Þriðji vandinn er, að í eindaga er komið að stöðva hrun sjálfseignarstefnunnar í húsnæðismálum, sem farin er að leiða til gjaldþrota margra fjölskyldna. Finna þarf peninga til að auka lánin og lengja þau.

Til þess að verjast þessum þrefalda vanda á skynsamlegan hátt verður ríkisstjórnin að skera niður ýmsa liði, sem hingað til hafa þótt heilagir í fjárlagafrumvörpum, þótt þeir séu í rauninni beinlínis skaðlegir þjóðarhag.

Fyrst er að nefna niðurgreiðslur landbúnaðarafurða, sem náðu 839 milljónum króna í síðasta fjárlagafrumvarpi. Þetta fé skekkir neyzluvenjur þjóðarinnar og dylur fyrir henni, hve sjúklega dýrt er að halda kindur og kýr.

Næst má geta útflutningsuppbóta landbúnaðarafurða, sem námu 263 milljónum króna í síðasta fjárlagafrumvarpi. Þessu fé er hreinlega hent í sjóinn, enda vilja útlendingar tæpast borga flutningskostnaðinn einan.

Í þriðja lagi eru margir liðir, sem hvetja til aukinnar fjárfestingar í landbúnaði kúa og kinda, þar sem fjárfesting er of mikil fyrir. Í rauninni er brýnt að stöðva frekari fjárfestingu á þessu rándýra sviði.

Í síðasta fjárlagafrumvarpi námu jarðræktarframlög, Stofnlánadeild landbúnaðar, búfjárræktarframlög, jarðeignir ríkisins, Jarðasjóður og Landnám ríkisins 101 milljón króna, stærstur hlutinn í fyrstu tveimur liðunum.

Í fjórða lagi hefur ríkið létt af bændum byrðum, sem aðrar stéttir þjóðfélagsins verða að bera, þar á meðal aðrir einyrkjar. Í síðasta fjárlagafrumvarpi nam Lífeyrissjóður bænda 10 milljónum og afleysingaþjónusta bænda 6 milljónum.

Í fimmta lagi greiðir ríkið kostnað stofnana í landbúnaði og sjávarútvegi umfram hliðstæðan kostnað í öðrum greinum, svo sem iðnaði og verzlun. Í síðasta fjárlagafrumvarpi nam Búnaðarfélagið 12 milljónum og Fiskifélagið 8 milljónum.

Í sjötta lagi greiðir ríkið niður lán til landbúnaðar umfram aðra atvinnuvegi í þjóðfélaginu. Í síðasta fjárlagafrumvarpi hét einn liðurinn “lántökukostnaður vegna landbúnaðar” og nam 55 milljónum króna.

Í sjöunda lagi ver ríkið hrikalegum fjárhæðum til að hvetja til hvers konar óarðbærrar fjárfestingar. Í síðasta fjárlagafrumvarpi nam Ríkisábyrgðasjóður 20 milljónum og Byggðasjóður 69 milljónum króna, allt í sandinn og sjóinn.

Samanlagt nema þessar tölur 1.383 milljónum króna og er þó ótalmargt ekki talið, svo sem blaðastyrkir upp á 4 milljónir. Ríkisstjórnin getur því af ýmsu skaðlegu tekið til að létta sér lausnina á hinum þrefalda vanda.

Jónas Kristjánsson

DV