Leiftursóknar-tíðindi.

Greinar

Ríkisstjórninni gengur vel að framkvæma leiftursókn sína. Það verða allir að játa, hvort sem þeir líta á stjórnarstefnuna sem leiftursókn gegn lífskjörum eða leiftursókn gegn verðbólgu og óhófslífi um efni fram.

Í síðasta mánuði hækkaði byggingarvísitalan ekki nema um 2,55% og lánskjaravísitalan aðeins um 1,34%. Skrautfjöðrin í hatti ríkisstjórnarinnar var þó framfærsluvísitalan, sem hækkaði nánast ekki neitt eða um 0,74%.

Sérstakar aðstæður hjálpa til að gera þessar tölur svona ótrúlega lágar. Ekki má búast við, að tölur næstu mánaða verði alveg jafnlágar. En engum getur dulizt, að verðbólgan er á dúndrandi niðurleið hér á landi.

Ýmislegt fleira hefur verið lagað en verðbólgan ein. Mikið af óskhyggju hefur verið skorið úr fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Samt má fullyrða, að enn séu þar inni óþarfir og skaðlegir liðir upp á hundruð milljóna.

Í gengismálum hefur ýmislegt verið lagfært. Sérstakur skattur á ferðamannagjaldeyri hefur verið lagður niður, svo að nú ríkir ekki tvöfalt gengi. Þá eru góðar horfur á, að gjafakjörum afurðalána verði breytt í gengistryggingu.

Ríkisstjórnin má þó hafa í huga, að gengisskráning er ónákvæmari mælikvarði en vísitala. Ríkisstjórnir geta til dæmis haft þá rangsnúnu hugsjón að falsa gengið með því að halda því föstu eins og þessi er að gera.

Þess vegna er út í hött að taka upp gengisviðmiðun á spariskírteinum ríkissjóðs í stað vísitölu. Við slíka breytingu er meiri hætta á krukki ríkisstjórna, sem hefur skaðleg áhrif á vilja manna til að spara peninga.

Óbeit á vísitölum getur gengið út í öfgar. Til dæmis er nú töluverð hætta á, að vextir verði lækkaðir örar en hjöðnun verðbólgunnar gefur tilefni til. Aldrei má ganga svo langt á því sviði, að vextir verði öfugir.

7% vaxtalækkunin fyrir helgina er örugglega á yztu nöf hins gerlega. Ríkisstjórnin má ekki verða of bráðlát í leiftursókninni. Enn hefur hún þó ekki hróflað við vöxtum á verðtryggðum reikningum né við þeim reikningum sem slíkum.

Sparnaðarandi verður seint ræktaður með Íslendingum, nema ár eftir ár og áratug eftir áratug sé þess gætt, að hagkvæmara sé að spara peninga en að eyða þeim. Sú er forsenda þess, að fólk leggi inn fé, sem síðan má lána út.

Ríkisstjórnin stefnir réttilega að óbreyttri skattabyrði. Nóg hefur verið lagt á fólk á þessu ári, þótt skattheimta sé ekki aukin í ofanálag. En slík stefna er auðvitað erfið á tíma ört minnkandi verðbólgu.

Erfiðast mun ríkisstjórninni reynast að standa við loforð sín og stjórnarflokkanna um lengri og hærri lán til íbúða. Þar sem fjárlagafrumvarpið er enn í óhæfilegum halla, hefur vandanum verið ýtt í lánsfjáráætlunina.

Þar verður ekki heldur um auðugan garð að gresja. Þegar skuldabyrði þjóðarinnar er komin upp undir 60%, er í mesta lagi hægt að slá ný lán fyrir afborgunum, en ekki til að auka byrðina. Eitthvað verður því undan að láta.

Einhver dráttur verður því væntanlega á, að ríkið byggi orkuver og draumóraverksmiðjur fyrir lánsfé á næstunni. Því má segja, að fátt sé svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Peningaleysið er okkur raunar bráðhollt.

Jónas Kristjánsson

DV