Tvöfölduð laxarækt.

Greinar

Laxarækt er að taka við sér hér á landi um þessar mundir. Í stöðvunum hafa í sumar komið á land tvöfalt fleiri laxar en í fyrrasumar. Þá voru laxarnir 5.400 samtals, en eru nú farnir að nálgast töluna 11.000.

Gaman væri, ef unnt væri að magna laxaræktina í þessum mæli ár eftir ár. Við ættum að geta það eins og Norðmenn, sem hafa aukið sína laxarækt úr 100 tonnum árið 1971 upp í 16.000 tonn á þessu ári og virðast hafa nægan markað.

Samt hafa Norðmenn haldið aftur af sínum laxaræktarmönnum. Þeir hafa orðið að sækja um leyfi til stjórnvalda, sem hafa verið afar spör á veitingar af ótta við, að allt færi úr böndum og markaðurinn hryndi.

Reynslan er hins vegar sú, að markaðurinn hefur aukizt í stíl við framleiðsluna. Norðmenn telja, að langt sé í, að markaðurinn fyllist. Þeir búast við stöðugu verði á laxi í náinni framtíð og eru bjartsýnni en áður.

Búizt er við, að eftir tvö ár verði laxarækt í Noregi orðin stærsta grein sjávarútvegsins. Það er ekki lítið afrek á skömmum tíma og hlýtur að vekja Íslendinga til hugsunar um, hvort ekki sé hægt að leika sama leikinn hér.

Richard F. Severson hjá Oregon Aqua Foods í Bandaríkjunum sagði nýlega í blaðaviðtali, að Ísland væri heppilegasta land í heimi til laxaræktar. Benti hann meðal annars á jarðhitann og hreina ferskvatnið á Íslandi.

Pétur Bjarnason sjávarútvegsfræðingur, sem kennir fiskeldi við Hólaskóla, hefur bent á, að Ísland liggi betur en Noregur við markaði í Bandaríkjunum, sem eru stærsta viðskiptaland norskra laxaræktarmanna.

Hið fáránlega sjóða- og forgangskerfi hér á landi hefur tafið framfarir í laxarækt. Menn fá sjálfvirk lán, ef þeir hyggjast rækta óþörf tún eða kaupa óþarfa skuttogara. Túnræktarmenn fá svo styrkina í ofanálag.

Fyrir bragðið eru ekki til peningar í lán handa laxaræktarmönnum. Við erum svo uppteknir við að styðja fortíðina, að við höfum ekki aðstöðu til að hyggja að framtíðinni. Þessu þarf umsvifalaust að breyta.

Við getum ímyndað okkur, hversu mikið væri hægt að gera í laxarækt, ef á hverju ári væri til ráðstöfunar andvirði svo sem eins óþarfs skuttogara. Við værum þá í fljúgandi framför eins og Norðmenn hafa verið undanfarin ár.

Mikil reynsla hefur þegar safnast fyrir í ræktunarstöðvum. Skúli á Laxalóni hefur verið í slagnum í þrjátíu ár. Jón í Lárósi hefur stundað reksturinn í tæpa tvo áratugi. Kollafjarðarstöð ríkisins er farin að skila árangri.

Farið er að kenna laxarækt við bændaskólana, svo að búast má við örari dreifingu þekkingar á næstu árum en verið hefur að undanförnu. Þessa kennslu mætti efla með samstarfi við laxaræktarmenn um verklega þjálfun.

Við höfum ekki bara hreina ferskvatnið og jarðhitann. Við höfum fóðrið í úrgangi fiskvinnslustöðvanna. Og við höfum daglegar flugsamgöngur til beggja átta yfir Atlantshafið. Við getum tekið forustu í laxarækt.

Á þessu ári munu Norðmenn hafa 3.800.000.000 króna gjaldeyristekjur af laxarækt. Okkur mundi muna um töluvert minna á tímum ofveiði og ofbeitar. Við skulum læra af Skúla á Laxalóni og Jóni í Lárósi og feta í fótspor þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV