Blanda er of dýr.

Greinar

Stjórnvöld eru um þessar mundir að herða upp hugann og ákveða að fresta virkjun Blöndu um að minnsta kosti eitt ár. Með þessu og ýmsu öðru á að stöðva skuldasöfnun í útlöndum eftir margra ára eyðsluveizlu.

Virkjun Blöndu má gjarna bíða í eitt ár og helzt lengur. Fullgert orkuver við ána verður mun dýrara en upphaflega hafði verið reiknað með. Orkan þaðan verður svo dýr, að engum dettur í hug að byggja stóriðju á henni.

Samningar við land- og kindaeigendur hafa reynzt miklu dýrari en ráð var fyrir gert. Samningarnir áttu að nema 5% af virkjunarkostnaði, en eru nú komnir í tæp 10%, sem er hvorki meira né minna en 300 milljónir króna.

Inni í þessari tölu eru samningar um ræktun, vegi, girðingar og fleira, en ótalinn er kostnaður við kaup á vatnsréttindum, sem enn hefur ekki verið samið um. Svokallað landeigendaauðvald á því eftir að verða enn dýrara.

Þessar 300 milljónir einar, sem búið er að semja um, jafngilda einnar milljónar króna húsnæðisláni til þrjúhundruð húsbyggjenda. Af þessum samanburði má sjá, að orkuveri við Blöndu er ætlað að verða heimamönnum gullnáma.

Hið fyndna í málinu er, að minnkun kindahaga er ein helzta forsenda þessara samninga. Mönnum gæti því dottið í hug, að bezt væri að virkja sem mest til að losna við sem mest af högum, svo að ríkið hafi færri kindur á framfæri!

Annar hængur á virkjun Blöndu er, að ekki hefur tekizt að ná heildarsamningum um kjör við framkvæmdir. Heimamenn vilja hafa forgang að allri vinnu, en verktakar vilja nýta þjálfað starfslið, sem kann til slíkra verka.

Meðan ekki nást samningar um, að leyfilegt sé að nýta reynslu og þjálfun við virkjun Blöndu, er ekki nokkur ástæða til að byrja á neinu. Orkuver eru til að framleiða orku, en ekki til að framleiða uppgrip hjá heimamönnum.

Staðreyndin er líka sú, að baráttan fyrir virkjun Blöndu hefur löngum borið keim af, að verið sé að hugsa um atvinnu frekar en orku. Sú hefur líka verið reynslan af sumum fyrri virkjunum, til dæmis í Grímsá.

Menn eru þegar búnir að kaupa sér þunga flutningabíla og stofna bílaleigu til að vera tilbúnir, þegar gullæðið á að hefjast. Af Kröflu þykjast menn hafa lært, hvernig orkuver í byggingu sáldri peningum í kring.

Ekki virðist vera nein fyrirsjáanleg þörf á rafmagni frá Blöndu. Krafla er komin upp í 25 megawatta afl, sem enginn þarf að nota. Hún getur hæglega farið í 30 megawött. Samt hefur aðeins verið sett þar upp önnur vélasamstæðan.

Þá eru framkvæmdir við Þjórsársvæðið að leiða til betri nýtingar á orkuverum á þeim slóðum, orkuverum, sem ekki eru keyrð á fullu vegna skorts á viðskiptavinum. Því ætti nú að vera kominn tími til að hægja orkuvæðinguna.

Vafasamt hlýtur að teljast, að Svisslendingarnir í Alusuisse tími að kaupa Blöndurafmagn á hinu háa kostnaðarverði. Og markmið orkuvera getur tæpast verið að selja niðurgreitt rafmagn til stóriðju á kostnað almennings.

Við skulum því opna augun, setja kostnað Kröflu og rafmagnslína inn í dæmi Landsvirkjunar og komast að því, hversu dýrt rafmagn er í rauninni hér. Á meðan getum við sem hægast frestað virkjun Blöndu og reynt að finna ódýrari kost.

Jónas Kristjánsson

DV