Þegar ég kenndi textastíl í símenntunardeild Háskólans í Reykjavík fyrir hálfum áratug, lét ég nemendur stytta texta. Skera leiðara úr 400 orðum í 200 orð og síðan í 100 orð án þess að tapa neinu. Nægur efniviður var, texti greina var almennt lélegur. Nú er ég aftur kominn af stað. Svo bregður við, að ég þarf að grafa eftir efnivið. Leiðarar duga ekki lengur og jafnvel ekki aðsendar greinar í blöðum. Eina skýringin, sem ég hef, er, að textagerð hafi almennt batnað svona mikið á stuttum tíma. Sé það rétt, þarf ekki að óttast um framvindu tungumálsins. Stofnanastíll er á undanhaldi fyrir alþýðustíl.