Full atvinna í verðhjöðnun.

Greinar

Hingað til hefur þótt tíðindum sæta, ef ríkisstjórn nær einhverju markmiði sínu. Því er það núna töluvert ánægjuefni, að fátt virðist geta komið í veg fyrir, að núverandi ríkisstjórn nái verðbólgunni niður í 30% um áramót.

Enn gleðilegra er, að þetta virðist munu takast án atvinnuleysis. Hingað til hafa menn trúað, að leiftursókn gegn verðbólgu mundi óhjákvæmilega leiða til stórskertrar kaupgetu og samdráttar í atvinnulífinu.

Í iðnaði ríkir bjartsýni. Gengisskráningin er nær raunveruleika en oftast áður og styrkir á þann hátt samkeppnisgetu íslenzkrar framleiðslu. Hið sama á sér stað í sjávarútvegi, þar sem skortur er á vinnuafli, þrátt fyrir barlóminn.

Meira að segja byggingariðnaðurinn, sem talinn er viðkvæmur fyrir sveiflum, er enn á fullri ferð með rífandi atvinnu, þótt kreppt hafi að húsbyggjendum. Með auknu fjármagni til íbúða í vetur á þessi grein að blómstra áfram.

Gagnrýnendur aðgerða ríkisstjórnarinnar harma, að hún hefur einhliða ráðizt gegn kaupmætti launataxta, en ekki lagt hliðstæðar byrðar á atvinnulífið. Launþegar hafi orðið einir að bera byrðarnar, en fyrirtækin ekki.

Ef til vill er þetta einmitt lykillinn að þeirri velgengni aðgerðanna, að full atvinna hefur haldizt í hruni verðbólgunnar. Vel stæð fyrirtæki geta frekar en illa stæð haldið uppi atvinnu og fært út kvíarnar til aukinnar atvinnu.

Segja má, að um nokkurra mánaða skeið hafi ríkt hér japanskt kerfi. Það felst í, að fyrirtækjum er leyft að blómstra, en kaupmætti er haldið í skefjum. Þannig urðu Japanir ríkir á nokkrum áratugum og komu sér fyrir á heimsmarkaði.

Bætt lífskjör fylgdu í kjölfarið, en ætíð í kjölfarið og ekki fyrirfram. Japanir öfluðu fyrst og eyddu svo. Með þessu tókst þeim á furðanlega skömmum tíma að koma lífskjörum sínum upp í þau, sem ríkja á Vesturlöndum.

Sumir gagnrýnendur geta viðurkennt þetta, en telja of geyst hafa verið farið í sakirnar hér. Þeir hafa sagt í allt sumar, að heimilin þoli ekki þessa leiftursókn gegn lífskjörum og verði hreinlega gjaldþrota.

En raunar er merkilegt, hversu lítið hefur borið á samdrætti í lífskjörum. Mjög margir höfðu raunar svigrúm til að spara kaup á vörum og þjónustu, sem ekki geta talizt til nauðsynja. Þetta svigrúm hafa þeir notað.

Samdráttur í innflutningi bifreiða og heimilistækja, svo og tízkuvarnings, er dæmi um, hvernig fólk hefur búið sér til svigrúm til að mæta erfiðleikunum. Mikil aukning krítarkorta bendir til hins sama.

Ríkisstjórnin má samt ekki gleyma, að til eru fjölskyldur, þar sem fyrirvinnan er aðeins ein og hefur aðeins hið lága taxtakaup Sóknar eða Iðju og fær hvorki yfirvinnu né yfirgreiðslur. Það er til undirstétt í landinu.

Það er hinn mannlegi þáttur, sem ríkisstjórnin þarf nú að láta kanna sérstaklega, svo að leiftursóknin verði ekki að hreinum harmleik hjá þeim minnihluta íslenzkra fjölskyldna sem býr við 11.000 króna raunveruleika.

Ef hægt er að hindra slíkan harmleik, er sennilegt, að ekki verði unnt að framleiða verkfallsáhuga hjá þjóðinni upp úr næstu áramótum, þegar samningar verða lausir. Þá getur ríkisstjórnin fengið vinnufrið til framhaldsins.

Jónas Kristjánsson.

DV