Bíll Steingríms.

Greinar

Vel getur verið, að Steingrímur Hermannsson sé á þessu ári fimmtán Sóknarkvenna virði. Vel getur verið, að hann ætti að fá í laun á þessu ári tvær milljónir króna í stað einnar milljónar króna ráðherralauna.

Opinberlega hefur forsætisráðherra um einnar milljónar króna laun á þessu ári, auk margvíslegra fríðinda, sem fylgja. En í ofanálag hefur hann nú gefið sér skattfrjáls 0,6 milljóna innflutningsgjöld af 1,2 milljóna bíl.

Þar sem þessar 0,6 milljónir eru skattfrjálsar, jafngilda þær um einni milljón króna í skattskyldum tekjum. Þannig tvöfaldar Steingrímur laun sín á þessu kjaraskerðingarári með því að beita úreltum spillingarákvæðum.

Eðlilegra væri, að almennt samkomulag ríkti í þjóðfélaginu um laun forsætisráðherra, svo að þeir séu ekki eins og útspýtt hundsskinn við að komast yfir undirborðsfé með aðferðum, sem samrýmast ekki sómatilfinningu manna.

Meðal stjórnmálamanna er ekki einu sinni eining um, að þeir eigi að fá að krækja sér í svart fé með þeim hætti, sem Steingrímur hefur gert. Það eru aðeins ráðherrar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sem haga sér svona.

Alþýðuflokkurinn hætti þátttöku í þessari spillingu árið 1970 og Alþýðubandalagið gerði það árið 1974. Spillingarstimpillinn stendur eftir á Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, sem nú virðast raunar telja sér flest leyfilegt.

Hér er verðugt verkefni fyrir áhrifamenn í þessum tveimur flokkum. Þeir mættu gjarna reyna að leiða ráðherrum sínum fyrir sjónir, að þeir séu ekki riddarar úr þrjátíu ára stríðinu, sem megi taka það, sem þá langar í.

Þjóðinni ber auðvitað að greiða ráðherrum sínum gott kaup í þeirri von, að það skili sér á annan hátt. En skilja ber á milli þeirrar nauðsynjar annars vegar og meðferðar hins opinbera á þessum tekjum hins vegar.

Alltof mikið er um, að ráðherrar og raunar stjórnmálamenn yfirleitt láti gilda um sig aðrar reglur en aðra landsmenn. Þingmenn hafa til dæmis hert skattheimtu um leið og þeir hafa ákveðið að undanskilja sig sömu ákvæðum.

Þannig eru ýmis fríðindi þingmanna ekki skattlögð, þátt sömu fríðindi annarra manna séu skattlögð. Þingmenn greiða ekki í lífeyrissjóð með sama hætti og aðrir menn gera. Að baki alls þessa er sjúk hugsun.

Reglan á að vera sú, að sömu lög, reglugerðir og hefðir gildi um alla landsmenn, hvort sem þeir heita Jón eða séra Jón. Sérstaklega er nauðsynlegt að koma þessu jafnvægi á í lögum, reglugerðum og hefðum um skatta og tolla.

Hitt er svo annað mál, að vert er að kanna, hvort kjör stjórnmálamanna séu nógu góð. Ef þeir eiga meira skilið en þeir fá með sömu reglum og annað fólk, eiga þeir að fá meira fé á sama hátt, en ekki undir borðið.

Siðbót er raunar orðin mjög brýn, þegar samtrygging stjórnmálaflokkanna hefur rofnað á þann hátt, að Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið treysta sér ekki til að taka þátt í verstu útgáfu spillingarinnar.

Og ekki verður séð, að milljón króna sjálfsgjöf forsætisráðherra stuðli að þjóðarsátt um lífskjaraskerðinguna. Samkomulag stjórnarflokkanna um afnám hinna fáránlegu toll- og skattsvika mundi hins vegar stuðla að vinnufriði.

Jónas Kristjánsson.

DV