Með aldrinum gerist ég skáldskap fráhverfari. Verð oftast fyrir vonbrigðum, þegar ég les skáldrit. Þau eru eitthvað svo hversdagsleg. Meira spennandi er að fylgjast með fréttum, innlendum og erlendum. Þær hætta aldrei að koma mér á óvart. Sannleikurinn er nefnilega ótrúlegri en skáldskapurinn. Fréttir og aðrar upplýsingar gefa meiri færi á stílþrifum en prósi og póesía. Það er gaman að segja frá sönnum atburðum. Held líka, að það geti verið fúlt að skrifa skáldrit síðan blogg, fésbók og tíst komu til skjalanna. Þau magna hlutdeild og áhrif þeirra, sem ekki geta flokkast til höfunda skáldverka.