Fjóra í nýtingu.

Greinar

Deilurnar í borgarstjórn um skipulagshugmyndir við Skúlagötu snúast að verulegu leyti um keisarans skegg. Þær fjalla um svokallað “nýtingarhlutfall”, það er að segja gólfflatarmál húsa deilt með flatarmáli byggingareita.

Meirihlutinn vill geta komið þessu nýtingarhlutfalli upp í tvo, meðan minnihlutinn vill einn eða hálfan annan. En þessar tölur skipta í rauninni minna máli en að yfirvöld láti skoða nákvæmlega allt samhengi málsins.

Nýtingarhlutfall gæti sem bezt verið fjórir, ef rétt er að farið. Slíkt hlutfall gæti stuðlað að samningum við hina mörgu lóðaeigendur, sem eiga sumir hverjir litla skika og hafa ekki áhuga á endurreisn svæðisins.

Við skulum ímynda okkur, að kjallarar fylltu út í alla byggingareiti svæðisins frá Skúlagötu upp fyrir Laugaveg. Í þessum kjöllurum væru bílastæði fyrir íbúa svæðisins, starfsfólk fyrirtækja og viðskiptavini þeirra.

Þar með væri þegar fengið nýtingarhlutfallið einn, áður en komið væri upp úr jörðinni. Ef svo við hugsuðum okkur áfram, að allir byggingareitirnir væru þaktir jarðhæð með verzlunum út að götu, væri hlutfallið komið upp í tvo.

Ef við enn hugsuðum okkur, að ofan á verslunarjarðhæðinni væru sums staðar ein og sums staðar tvær hæðir undir skrifstofur og ýmsa þjónustu við íbúana, svo og skjólsæl leiksvæði og önnur opin svæði, væri hlutfallið komið í þrjá.

Ef við loks hugsuðum okkur, að upp úr þessum mannvirkjum risu í öllu norðanverðu Skólavörðuholti um tuttugu íbúðaturnar, fimmtán hæða og með sex íbúðum á hverri hæð fyrir ofan þá þriðju, væri nýtingarhlutfallið komið upp í fjóra!

Nóg svigrúm væri samt um þessa íbúðaturna, hátt til lofts og vítt til veggja. Úr öllum íbúðum væri gott útsýni og andrúmsloft væri gott. Skjót leið væri með lyftu niður í þjónustustofnanir og sjálfa miðborg Reykjavíkur.

Ef svæðið væri þar á ofan skipulagt á þann hátt, að íbúar turnanna og viðskiptavinir miðborgarinnar gætu komizt innanhúss inn á yfirbyggðan Laugaveg, væri í fyrsta sinn á Íslandi búið að reisa byggð með tilliti til hnattstöðunnar.

Í framhjáhlaupi má minna á, að kostnað við gagnsæ þök á götum má greiða með ódýrari einangrun húsveggja, sem snúa að götunni, og með lægri hitunarreikningum húsanna, svo framarlega sem komið er í veg fyrir dragsúg á götunum.

Þetta dæmi um skipulagshugmynd er rakið hér til að sýna fram á að nýtingarhlutfall skiptir litlu máli, en heildstæð skipulagshugsun miklu. Minnihlutinn í borgarstjórn er á villigötum í gagnrýni á nýtinguna.

Það er meirihlutinn líka, ef hann hyggst skipuleggja út frá einum byggingareit við Skúlagötu. Slíkt er ekki hægt að gera af viti, nema vitað sé, hvernig endanleg mynd norðurhlíðar Skólavörðuholts eigi að vera.

Til dæmis er hugsanlegt, að útidyr íbúðaturna við Skúlagötu ættu ekki að vera eingöngu á fyrstu hæð, heldur til dæmis einnig á þriðju eða fjórðu hæð til að létta samgöngur gangandi fólks við verzlanir, og þjónustu ofar í hlíðinni.

Norðurhlíð Skólavörðuholts gefur svo stórfenglega möguleika á vönduðu skipulagi veðursællar miðborgar með þéttri íbúðabyggð, að því má ekki glata í vinstra rugli um nýtingarhlutfall eða í hægri asa skipulags á of afmörkuðum reitum.

Jónas Kristjánsson.

DV