Ekki lengur fasteignir.

Greinar

Skoðanakönnunin í DV í dag um fylgi stjórnmálaflokkanna staðfestir, að kjósendur bera takmarkað traust til þeirra. Nærri helmingur hinna spurðu treysti sér ekki til að lýsa yfir fylgi við neinn þeirra.

Þetta stafar ekki af tregðu fólks til þáttöku í skoðanakönnunum sem þessari. Við sama tækifæri var einnig spurt um afstöðuna til ríkisstjórnarinnar og efnahagsaðgerða hennar. Allur þorri manna treysti sér til að svara þeim spurningum.

Í mörg ár hafa skoðanakannanir sýnt, að kjósendur hafa losað um tengslin við flokkana og ákveða sig ekki fyrr en rétt fyrir kosningar og jafnvel ekki fyrr en í kjörklefanum. Þeim fækkar, sem flokkarnir geta gengið að sem vísum.

Afleiðingin hefur komið í ljós í miklum sveiflum á fylgi flokkanna. Í vor sigruðu Sjálfstæðisflokkurinn og nýju framboðin. Þar á undan hafði Framsóknarflokkurinn verið sigurvegari og þar áður Alþýðuflokkurinn.

Hinn mikli fjöldi, sem ekki svaraði spurningunni um fylgi við flokka í þessari nýjustu könnun, veldur því að erfitt er að túlka niðurstöðurnar, bera þær saman við síðustu kosningaúrslit og spá um horfurnar í hinum næstu.

Þeir, sem nú eru óvissir, munu í næstu kosningum ekki raðast á flokkana í sömu hlutföllum og hinir, sem nú eru ákveðnir í vali sínu. Reynslan sýnir til dæmis, að slíkar kannanir vanmeta fylgi Alþýðubandalagsins og ofmeta Sjálfstæðisflokkinn.

Með þessum fyrirvara er þó hægt að benda á sérstaklega góða útkomu Sjálfstæðisflokksins í könnuninni. Fjórðungur hinna spurðu og helmingur hinna ákveðnu lýsti yfir stuðningi við þennan flokk harkalegra efnahagsaðgerða.

Að meðtöldum sérframboðum hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 39,2% atkvæða í kosningunum í vor. Í hinni nýju könnun náði hann 47,9% þeirra, sem afstöðu tóku. Þetta er hvorki meira né minna en 8,7 prósentustiga aukning.

Ekki er þetta eingöngu aðgerðum stjórnvalda að þakka, því að hinn stjórnarflokkurinn fær í könnuninni verstu útkomu allra flokka. Það er Framsóknarflokkurinn, sem fékk í vor, að meðtöldum sérframboðum, 19% atkvæða.

Í könnuninni hlaut Framsóknarflokkurinn hins vegar ekki nema 14,8% stuðning þeirra, sem afstöðu tóku. Það er 4,2 prósentustiga minnkun. Hún hlýtur að kynda undir óánægju framsóknarmanna með stjórnarsamstarfið.

Næst Sjálfstæðisflokknum eru það Samtök um kvennalista, sem beztum árangri náðu í könnuninni. Þau fengu nú í sinn hlut 7,2% þeirra, sem afstöðu tóku, en höfðu 5,5% atkvæða í kosningunum í apríl síðastliðnum.

Þetta bendir til, að Samtök um kvennalista séu ekki dægurfluga einna kosninga, heldur varanlegra stjórnmálaafl. Þá koma Alþýðuflokkurinn og Bandalag jafnaðarmanna illa út úr þessari skoðanakönnun.

Að venju snerta sveiflurnar, sem hér hefur verið lýst, Alþýðubandalagið minnst allra flokka. Það hlaut 18% fylgi þeirra, sem afstöðu tóku. Það er örlitlu betra en 17,3% útkoma flokksins í kosningum ársins.

Öllum þessum niðurstöðum þarf að taka með fyrirvara, nema þeirri, að kjósendur eru ekki trúir flokkunum og eru til alls vísir í næstu kosningum. Þeir eru ekki lengur fasteignir flokkanna og geta í mesta lagi talizt lausafé þeirra.

Jónas Kristjánsson.

DV