Rafmagn verður áfram dýrt.

Greinar

Nýjasta greinargerð Orkustofnunar staðfestir, sem haldið hefur verið fram hér í þessum dálkum, að martröð hins háa orkuverðs hjá íslenzkum notendum á sér nokkrar samverkandi orsakir, sem menn gerðu sér litla grein fyrir.

Í fyrsta lagi hafa orkuverin ekki reynzt eins ódýr og reiknað var með. Hin ungu jarðlög landsins eru laus í sér og lek. Jökulár láta treglega temja sig, auk þess sem þær leika grátt hverflana í orkuverunum.

Í öðru lagi eru flest orkuverin ung að árum og hafa að öllu leyti verið reist með lánsfé. Það hefnir sín núna að hafa ekki fyrr á árum notað rétt verð á rafmagni og myndað á þann hátt eigið fé í orkufyrirtækjunum.

Þessar tvær ástæður valda því, að orkuverð í heildsölu er miklu hærra hér á landi en í öðru, nálægu vatnsaflslandi, Noregi. Þar er verðið um 20 mills, en hér er það 33 mills. Þetta er óneitanlega verulegur munur.

Um leið má ekki gleyma, að víða um heim, þar sem minna er um vatnsafl, er orkuverð í heildsölu mun hærra en hér. Til dæmis er það 58 mills í Bandaríkjunum og 75 mills í Englandi. Við megum því sampart vel við una.

Þá kemur að þriðju ástæðunni, sem hækkar orkuverð til íslenzkra notenda. Það er hin gífurlega dýra dreifing orkunnar, sem ræðst af stærð landsins, fámenni þjóðarinnar og óblíðu veðurfari. Þetta tvöfaldar verðið.

Þegar svo bætist við hinn myndarlegi, íslenzki söluskattur, er orkuverðið í heimilisnotkun manna komið upp í um 100 mills að meðaltali. Hluti af þessu verði felst í mikilli verðjöfnun milli þéttbýlis og strjálbýlis.

Að baki þessa verðs upp á 100 mills er svo einnig fjórða ástæðan. Hún er fólgin í misheppnuðum samningum um orkuverð til stóriðju. Það verð er um það bil að hækka upp í 10 mills, sem er hlægilegt í samanburði við 100 mills almennra notenda.

Stóriðja er að vísu stór viðskiptavinur og á sem slíkur að fá sérstök kjör. En einstakar rafveitur eru líka stórir viðskiptavinir orkuvera og þurfa þó að greiða margfalt hærra heildsöluverð eða í kringum 40 mills.

Stóriðja getur um takmarkaðan tíma stuðlað að fullnýtingu orkuvers, það er að segja frá þeim tíma, að það tekur til starfa, og fram að þeim tíma, er fjármagna þarf annað nýrra orkuver. Þessi hagur er því skammvinnur.

Sum stóriðja er betri en önnur að því leyti, að hún getur notast við afgangsorku í stað forgangsorku. Að svo miklu leyti sem hún fyllir upp í lægðirnar milli toppanna í orkunotkun, kallar hún ekki á nýja fjárfestingu í orkuöflun.

Slíkri stóriðju mætti selja orku á verði, sem væri innan við 20 mills, en annarri ekki. Til dæmis væri ekkert vit í að selja forgangsorku til stækkunar álversins í Straumsvík á minna en 20 mills frá Blöndu eða Þjórsá.

Samkeppnisaðstaða okkar við lönd lágs orkuverðs er ekki svo góð, að við getum búizt við að létta af okkur martröð orkuverðsins með nýjum samningum um sölu til gamallar eða nýrrar stóriðju. Þaðan koma engar himnasendingar.

Almennir notendur verða áfram að sætta sig við heimsmetsverð á rafmagni og bíða eftir, að erlendar orkuskuldir greiðist niður. Þá getum við um síðir vænzt þess, að orkuverð til heimilisnota mjakist niður fyrir meðalverð í nálægum löndum.

Jónas Kristjánsson.

DV