Pennastrikum fjölgar.

Greinar

“Pennastrikin’, eru að komast í fullan gang í útgerðarstefnu ríkisstjórnarinnar. Þessi stefna felst í að þjóðnýta tap þeirra útgerðarfyrirtækja, sem lagt hafa í vonlausa og vitlausa fjárfestingu á undanförnum árum.

Nýjasta pennastrikið er eftirgjöf á vöxtum af fjárfestingarlánum útgerðarinnar í Fiskveiðasjóði. Í tölum nemur eftirgjöfin 100 milljónum króna og í prósentum 30% af eins árs vöxtum. Þetta var samþykkt í ríkisstjórninni í fyrradag.

Áður hafði frétzt af öðru pennastriki. Það felst í, að ríkissjóður losi útgerðina Þormóð ramma á Siglufirði við 65-70 milljón króna skuldir og breyti þeim í aukið hlutafé ríkisins í fyrirtækinu. Þetta hefur ekki enn verið afgreitt.

Óneitanlega eru slíkar aðgerðir dálítið kostulegar eftir allt talið um sölu ríkisfyrirtækja og sölu hlutabréfa ríkisins í atvinnulífinu. Svo virðist sem raunveruleikinn muni felast í auknum ríkisumsvifum, en ekki minnkuðum.

Að baki hugmyndarinnar um pennastrik er sá sannleikur, að peningarnir, sem verið er að tala um, eru í rauninni glataðir. Hinir opinberu sjóðir, sem eru lánardrottnar útgerðarinnar, munu ekki fá peninga skattgreiðenda til baka.

Sem dæmi um þetta öngþveiti má nefna, að samkvæmt lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar þarf Fiskveiðasjóður að taka 400 milljón króna lán vegna áætlaðs greiðsluhalla á næsta ári til viðbótar við 483 milljóna halla á þessu ári.

Að baki þessara talna felst, að Fiskveiðasjóður þarf að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum, sem hann hefur tekið til að lána í skipakaup, en hefur ekki fengið á móti vexti og afborganir af þeim útlánum.

Raunar hafa útlán Fiskveiðasjóðs um nokkurt árabil verið með þeim endemum, að ráðamenn sjóðsins ættu að sæta málshöfðun fyrir meinta óráðsíu í meðferð opinberra fjármuna. Allir vissu, að sum lánin voru hrein endaleysa.

Langt er síðan bent var á, að engin von væri á, að skip, sem smíðuð væru innanlands, gætu aflað upp í afborganir og vexti. Og nokkuð er síðan bent var á, að sama regla væri einnig farin að gilda um skip frá útlöndum.

Bæði lánveitendur og lántakendur vissu vel, að lán til margra nýrra skipa mundu aldrei verða endurgreidd. Enda er nú komið í ljós, að í sumum tilvikum eru skuldir fiskiskipa orðnar mun hærri en verðmæti sömu skipa.

Sumpart er eðlilegt, að menn bendi á, að skuldir þessar séu glataðar. Þær séu orðnar að bókhaldsatriði, sem bezt sé að beita pennastriki. En þetta er samt ekki rétta leiðin til að létta af öngþveitinu í útgerðinni.

Með pennastrikum á borð við eftirgjöf vaxta í Fiskveiðasjóði er verið að verðlauna skussana. Verið er að hossa þeim, sem hafa keypt óþörf og skaðleg skip, á kostnað hinna, sem fyrir ráku heilbrigða og arðsama útgerð.

Miklu nær er að leyfa óðs manns útgerðaræðinu að verða gjaldþrota eins og Fiskveiðasjóður hyggst nú gera. Síðan þarf að tryggja, að ekki verði gerð út fleiri skip en svo, að aflinn á skip verði nægilega mikill.

Öngþveitið í útgerð stafar að verulegu leyti af offjölgun skipa umfram þol fiskistofna. Pennastrik í þágu skuldakónga gera illt verra. Þau fresta vitrænum aðgerðum til aukningar á svigrúmi vel rekinnar og heilbrigðrar útgerðar.

Jónas Kristjánsson

DV