Útsæðið er á enda.

Greinar

Undanfarin ár hefur Hafrannsóknastofnunin alltaf reynzt of bjartsýn í tillögum um leyfilegt aflamagn úr helztu fiskistofnum Íslandsmiða. Reynslan hefur sýnt, að tölur hennar hafa verið of háar, en ekki of lágar.

Þessu hefur forstjóri stofnunarinnar ráðið. Hann gerir þetta til að þóknast ístöðulitlum sjávarútvegsráðherrum, sem vilja með engu móti horfast í augu við óþægilegar staðreyndir, hvað þá sársaukafullar gagnaðgerðir.

Einn versti sjávarútvegsráðherra Íslandssögunnar er núverandi forsætisráðherra. Hann sagði líka í blaðaviðtali í fyrradag; “Vonandi eru þessar tillögur eins vitlausar og aðrar, sem komið hafa frá þeim.”

Steingrímur Hermannsson notar þá staðreynd, að tölur Hafrannsóknastofnunarinnar hafa verið rangar upp á við, til að gera því skóna, að þær séu nú rangar niður á við. Til stuðnings þess hefur hann ekki eitt gramm af röksemdum.

Við annað tækifæri sagði þessi ístöðulitli ráðherra: “Við verðum að meta, hvað þjóðarbúið þolir annars vegar og hvað þorskstofninn þolir hins vegar.” Þá var hann sem sjávarútvegsráðherra að stuðla að áframhaldandi ofveiði.

Ráðherraun átti við, að þjóðarhagur kynni að krefjast þess, að áfram verði gengið á þorskstofninn. Það er sama og að segja, að nauðsynlegt kunni að vera að éta útsæðið. Og svo látum við svona menn stjórna þjóðinni.

Núverandi sjávarútvegsráðherra hefur ekki talað út í hött um hina nýju “svörtustu skýrslu” eins og hinn fyrrverandi hefur gert um þessa og aðrar fyrri. En auðvitað er nú sem fyrr freistandi að stinga höfðinu í sandinn.

Ef Halldór Ásgrímsson vill víkja frá stefnu útsæðisáts fyrirrennaranna, verður hann að gera sér grein fyrir, að lítill munur er á þoli þorsksins og þoli þjóðarbúsins. Ef hið fyrra brestur, er hið síðara brostið um leið.

Sjávarútvegurinn hefur alla þessa öld verið eina arðbæra auðlindin okkar. Hann hefur byggt upp þjóðarauðinn og borgað velmegunina. Við stöndum nú andspænis því, að auðlindina sé að þrjóta og að það sé okkur sjálfum að kenna.

Í skjóli sjávarútvegsins höfum við leyft okkur að halda uppi dulbúnu atvinnuleysi í fáránlegum landbúnaði kúa og kinda. Í skjóli hans höfum við líka leyft okkur að hægja á iðnvæðingunni, sem ein getur tryggt framtíð okkar.

Nú er þetta skjól að hverfa. Þorskveiðin mun hrynja úr 290.000 tonnum á þessu ári niður í 200.000 tonn á næsta ári. Loðnuveiðin mun hrynja úr 375.000 tonnum á þessum vetri niður í 100.000 tonn á næsta vetri.

Útgerðarmennirnir, sem eru raunsærri en stjórnmálamennirnir, hafa verið að þinga á Akureyri. Þar hafa komið fram tillögur um að leggja flotanum í þrjá mánuði til að hvíla sóknina. Þetta sýnir, hve alvarleg staðan er.

Þetta kann að vera nauðsynlegt. En bezt væri að stöðva útgerð skipanna, sem grínistar hafa verið að kaupa á undanförnum árum, gegn ráðum útgerðarmanna og annarra. Þessi skip gera ekkert annað en að spilla fyrir útgerð hinna.

Ljóst er, að gífurlegur samdráttur verður í sjómennsku og fiskvinnslu ofan í þá kreppu, sem fyrir er. Lífskjör okkar munu versna enn meira en þegar er orðið. Það er meðal annars herkostnaður okkar af ístöðulitlum ráðamönnum.

Jónas Kristjánsson

DV