Þjóðin kjósi um bjór.

Greinar

Sum mál eru þess eðlis, að fólk hefur afstöðu til þeirra, sem er meira eða minna óháð öðrum skoðunum þess, til dæmis á stjórnmálum. Gott dæmi um þetta eru viðhorf manna til þess, hvort leyfa skuli sölu á venjulegum, þ.e.a.s. áfengum bjór.

Erfitt er að hugsa sér, að Sjálfstæðisflokkurinn eða Alþýðubandalagið, svo dæmi séu nefnd, geti haft flokkslega skoðun á slíku máli. Innan allra flokka hljóta að vera þverstæð og ósættanleg sjónarmið í máli af þessu tagi.

Stjórnmálaflokkarnir hafa á Alþingi fulltrúafjölda í hlutfalli við stuðning kjósenda í síðustu kosningum. Þannig endurspeglar Alþingi almenn stjórnmálaviðhorf landsmanna, en ekki viðhorf þeirra til venjulegs bjórs.

Ef slík þverpólitísk mál eru tiltölulega einföld í sniðum, ef almenningur á tiltölulega auðvelt með að svara þeim með einföldu jái eða neii, – þá eru þau kjörið viðfangsefni í þjóðaratkvæðagreiðslu til hliðar almennum kosningum.

Íslendingar eiga áreiðanlega auðvelt með að svara, hvort þeir vilji eða vilji ekki, að sala á áfengum bjór verði leyfð í búðum áfengisverzlunarinnar og á vínveitingastöðum. Þetta er einföld spurning um já eða nei.

Magnús H. Magnússon alþingismaður hefur ásamt nokkrum þingmönnum úr öðrum flokkum lagt fram tillögu um, að Alþingi feli ríkisstjórninni að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um bjórinn samtímis næstu almennum kosningum.

Þetta er þörf tillaga um eðlilega meðferð á viðkvæmu deilumáli, sem Alþingi getur ekki leyst sjálft, af því að það er mannað á öðrum forsendum, pólitískum. Hvað er betra en að vísa slíku máli til þjóðarinnar í heild?

Auk þess er bjórmálið kjörið tækifæri til að dusta rykið af heimild til þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hefur alltof lítið verið notuð, þótt ýmis þverpólitísk mál hafi komið til háværrar umræðu bæði innan þings og utan.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um þverpólitísk mál getur orðið mikilvægur þáttur í efldu lýðræði í landinu. Það hlýtur að draga úr spennu vanmáttar, ef fólk fær að taka þátt í ákvörðunum, hver svo sem úrslitin verða að lokum.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki dýrt lýðræði, ef hún fer fram samhliða annaðhvort alþingiskosningum eða byggðakosningum. Raunar væri tiltölulega ódýrt að kjósa um ýmis slík sérmál samhliða venjulegum kosningum.

Um þessar mundir benda líkur til, að meirihluti þingmanna sé annaðhvort beinlínis hlynntur sölu á venjulegu öli eða hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hinir eru færri, sem hvorki vilja bjór né þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að vísu er ekki vitað, hvernig atkvæði munu falla að lokum, þegar búið er að rökræða og rífast um málið á Alþingi og öðrum opinberum vettvangi. Má búast við heiftúðugri umræðu, ef þjóðkunnir bjórhatarar verða sjálfum sér líkir.

Bent verður á, að skoðanakannanir sýni stuðning tveggja þriðju hluta landsmanna við bjórinn gegn einum þriðja hluta. Sagt verður, að þingmenn séu í raun að samþykkja þjóðarfyllirí með því einu að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þingmönnum ber að standa af sér þá orrahríð. Þeim ber að vísa bjórmálinu til þjóðarinnar allrar. Á þann hátt einan fæst brýn niðurstaða í ósættanlegu deilumáli, sem gengur eins og fleinn gegnum alla stjórnmálaflokka landsins.

Jónas Kristjánsson.

DV