Handarbök Hagvangs.

Greinar

Þrátt fyrir slæma reynslu af skoðanakönnunum Hagvangs hefur fyrirtækið enn einu sinni komið til skjalanna með tíu þumalfingur og fjögur handarbök. Árangurinn er sá, að forsætisráðherra er að ástæðulitlu ákaflega glaður.

Hagvangur spurði: “Ef kjaraskerðing getur haft áhrif til lækkunar á verðbólgu, ertu þá sjálfur tilbúinn eða ekki tilbúinn, að launahækkanir verði ekki umfram það, sem ríkisstjórnin hefur boðað á næstu 12 mánuðum?”

Spurning þessi brýtur flest lögmál um orðalag í vönduðum skoðanakönnunum. Í fyrsta lagi er hún grautargerð, sem hinn spurði getur hæglega misskilið. Og í öðru lagi er hún hreinlega leiðandi í hag ríkisstjórninni.

Í spurningunni er tveimur innri spurningum ósvarað: Hefur kjaraskerðingin áhrif til lækkunar á verðbólgu? Og mun ríkisstjórnin sjá um launahækkanir á næstu tólf mánuðum? Svona stór EF er ekki leyfilegt að gefa sér í skoðanakönnunum.

Í heild lítur spurningin út eins og mafíutilboð, sem ekki er hægt að hafna. Með tveimur EF-um er búin til aðstaða, sem hinn spurði á sálrænt erfitt með að svara með neii, án þess að telja sig hálfgerðan eiginhagsmunasegg.

Berum spurningu Hagvangs saman við spurningu DV í fyrra mánuði: “Ertu fylgjandi eða andvígur efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar frá í júní?”. Þessi síðari spurning er einföld og auðskilin. Hún kallar ekki á annað svarið umfram hitt.

Með því að heimila óprúttnum forsætisráðherra að nota villandi tölur úr flókinni og leiðandi spurningu hefur Hagvangur lagt stein í götu skoðanakannana og gert hinum erfitt fyrir, sem stunda slíkar kannanir af alvöru.

Skoðanakannanir eru vandasöm vísindi, sem útilokað er að umgangast eins og fíll í glervörubúð. svo sem Hagvangur hefur gert. Það tekur skamman tíma að eyðileggja álit og traust, sem aðrir hafa byggt upp á löngum tíma.

Í þjóðfélaginu eru valdahópar, einkum í stjórnmálum, sem vilja skoðanakannanir feigar. Þeir vilja skipuleggja þær með lagasetningu og banna þær í sumum tilvikum. Þessir aðilar munu nú fara á kreik á nýjan leik.

Hagvangur hefði gjarnan mátt reyna að læra dálítið af niðurstöðum skoðanakannana þriggja aðila fyrir alþingiskosningarnar í vor. Þá reyndist fyrirtækið hafa á bakinu niðurstöðu, sem var lengst frá úrslitum kosninganna.

Auðvitað var niðurstaða skoðanakönnunar DV fyrir kosningarnar í vor sú hinna þriggja, sem kom langsamlega næst úrslitum kosninganna. Enda var þar að baki fjórtán ára reynsla í slípun aðferðafræði slíkra kannana.

Á þessum fjórtán árum var smám saman unnt að byggja upp traust almennings á skoðanakönnunum. Réð þar miklu, hve nálægt kosningakannanir reyndust vera úrslitum eftirfylgjandi kosninga. Nú taka menn almennt mark á könnunum.

Þess vegna er hart að sjá fílinn ryðjast inn í glervörubúðina undir fínu nafni hagfræðinnar og fara að brjóta verðmætt glerið, til þess eins að forsætisráðherra ímyndaði sér, að 65% þjóðarinnar telji hann á réttri leið.

Tíu þumalfingur og fjögur handarbök eru ekki vænleg til árangurs í skoðanakönnunum, jafnvel þótt tölvur séu hafðar til aðstoðar. Þegar þvæla er sett inn í tölvur, kemur þvæla út, íslenzkum vísindum til varanlegs tjóns.

Jónas Kristjánsson.

DV