Stöðvum steinullina.

Greinar

Samkvæmt lögum um steinullarverksmiðju er ríkisstjórninni því aðeins heimilt að leggja fram fé til fyrirtækisins, að hlutaféð í heild verði að minnsta kosti 30% af stofnkostnaði hinnar fyrirhuguðu verksmiðju á Sauðárkróki.

Núverandi ríkisstjórn braut þessi lög um daginn, þegar hún samþykkti ríkisaðildina, enda þótt hlutafé fyrirtækisins eigi ekki að vera nema tæp 5% af stofnkostnaði í stað 30% eða 30 milljónir króna í stað 192 milljóna.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur ríkisstjórnin ákveðið að útvega á næsta ári 80 milljónir króna í erlendum lánum til verksmiðjunnar. Er þá enn eftir að útvega 530 milljón króna lán í þetta 640 milljón króna gælufyrirtæki.

Ábyrgð núverandi ríkisstjórnar er þyngri en hinnar, sem fékk lögin um steinullarverksmiðjuna samþykkt fyrir hálfu þriðja ári. Í lögunum eru fyrirvarar, sem ekki hefur verið staðið við. Samt ætlar ríkið að taka þátt.

Þyngsta ábyrgð á þátttöku mundu bera Albert Guðmundsson í fjármálaráðuneytinu og Sverrir Hermannsson í iðnaðarráðuneytinu. Hinn fyrrnefndi á að ábyrgjast lánin og hinn síðarnefndi kaupa hlutaféð – fyrir lánsfé.

Hlægilegt er, að annar þessara ráðherra, sem er að reyna að selja ríkisfyrirtæki, á að taka þátt í að útrýma um 50 atvinnutækifærum í sautján einkafyrirtækjum í framleiðslu einangrunar og færa yfir í eina ríkiseinokun.

Hin makalausa verksmiðja núverandi ríkisstjórnar á að framleiða úrelta vöru, sem hvarvetna er á hröðu undanhaldi í byggingaiðnaði. Í útlöndum eru slíkar verksmiðjur reknar með aðeins 50% afköstum.

Mikla afhygli hefur vakið á síðustu árum, hversu hættulegt er að vinna í steinullarverksmiðjum. Í Danmörku einni létust í fyrra ellefu starfsmenn úr krabbameini vegna mengunar af steinullarryki. Svo kvarta sumir út af álverum!

Enginn hefur í alvöru haldið fram, að unnt verði að selja nokkuð af framleiðslunni til útlanda. Samt er verið að stofna verksmiðju, sem á að framleiða 6.000 tonn á ári upp í heimamarkað, sem var 610 tonn í fyrra.

Greinilegt er, að níu tíundu hlutar framleiðslunnar munu ekki seljast, nema þrengt verði að öðrum einangrunarefnum á markaðnum, svo sem glerull og plasti. Það verður fyrst gert með tollum og kvótum og síðast með einokun.

Húsbyggjendur munu borga brúsann í hækkuðum byggingakostnaði. 50 starfsmenn í 17 einkafyrirtækjum munu borga brúsann í atvinnumissi. Skattgreiðendur og erfingjar landsins munu borga brúsann í ríkisútgjöldum og erlendum skuldum.

Heimamenn á Sauðárkróki ætla aðeins að leggja fram 0,6% kostnaðar eða fjórar milljónir af 640 milljónum. Það eru 13% af hlutafénu. Finnar eiga að leggja fram 17%. Sambandið 30% og ríkið 40%. Þannig er búið til gælufyrirtæki.

Allir útreikningar á arðsemi verksmiðjunnar eru út í hött, enda hafa margir sérfróðir aðilar varað við feigðarflaninu. Til dæmis hefur Skipaútgerð ríkisins ekki samþykkt að flytja steinullina á 75% afslætti af farmgjöldum.

6.000 tonna verksmiðja fyrir 610 tonna markað er vitlausasta iðnaðarævintýri Íslandssögunnar, vonlausara en Kröfluvirkjun. Þar verður kastað á glæ 640 milljónum króna.

Þetta gæludýr verður að stöðva. Albert getur það, ef hann vill.

Jónas Kristjánsson.

DV