Lögregla á glapstigum.

Greinar

Margir íslenzkir lögregluþjónar eru mannþekkjarar og lipurmenni, sem vinna störf sín óaðfinnanlega. Þeir geta með orðum sínum og framkomu stillt til friðar milli hjóna og sefað æsingamenn, svo sem mörg dæmi sýna.

Hitt er svo líka rétt, að ofbeldismenn sækjast eftir störfum við löggæzlu. Það er alkunnugt vandamál um allan heim. En hér er það sérstaklega erfitt viðureignar, af því að slíkir menn hafa ekki her til að ganga í.

Brezk yfirvöld lögreglumanna hafa lagt sérstaka áherzlu á að halda þessum vanda í skefjum. Þau vilja halda góðu sambandi borgara og lögreglu. Og það hefur tekizt nógu vel til að gera brezka lögregluþjóna heimskunna.

En jafnvel þar verða mistök. Lögreglumenn á vettvangi kynþáttaóeirða brutust inn í óviðkomandi íbúðir til að brjóta og bramla. Og konur þora vart að kæra nauðgun, af því að mörgum lögregluþjónum finnst hún fyndin.

Í nýbirtri skýrslu Policy Studies lnstitute eftir fjögurra ára rannsókn á atferli lögreglunnar í Lundúnum kemur margt ófagurt í ljós. Áberandi er, hve hraðlygnir lögregluþjónar eru fyrir rétti, þegar þeir reyna að verja hver annan.

Skýrsla þessi sýndi, að meðal lögregluþjóna var útbreitt hatur á minnihlutahópum, konum og yfirleitt öllum þeim, sem eru minni máttar í þjóðfélaginu. Þetta er hugarfar valdshyggjumanna, sem sumir eru ofbeldismenn.

Borgarinn, sem sætti misþyrmingum reykvísks lögregluþjóns fyrir rúmri viku, var heppinn, að vitni voru nærstödd. Annars hefði mátt búast við, að lögreglumennirnir hefðu logið hver um annan þveran um tildrög málsins.

Ofbeldisárás lögreglumannsins á handjárnaðan borgara sýnir, hvernig farið getur, þegar yfirvöld lögreglumanna missa tök á aga og skipulagi. Þá brýzt í gegn ofbeldiseðlið, sem blundar í sumum lögregluþjónum.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur tekið dauflega á þessu máli og reynt að bera blak af “sínum” manni. Þessi glöp hans eru til þess fallin að telja lögregluþjónum trú um, að þeir séu ríki í ríkinu, ofan laga og réttar.

Mörg fleiri dæmi eru um þennan agaskort. Þegar blaðafréttir sögðu frá efasemdum læknis um meðferð lögregluþjóna á blóðprufum, var ekki farið að innsigla slíkar blóðprufur, heldur höfðað kærumál á hendur blaðinu.

Hvað eftir annað eru lögregluþjónar staðnir að stórhættulegum eltingaleik við drukkna ökumenn. Þeir margfalda hættuna, sem stafar af þessum mönnum.

Áberandi er, að lögregluþjónar taka yfirleitt trúanleg orð ofbeldishneigðra dyravarða á veitingahúsum fram yfir orð venjulegra borgara.

Yfirstjórn löggæzlu í Reykjavík er slík, að borgarar þekkja lögregluþjóna helzt sem stimpingamenn, er reyna að hindra fólk í að komast í búðir á vissum tímum, eða þá sem felumenn, er reyna að gefa út ökuhraðakærur á breiðgötum á góðviðrisdögum.

Lögreglustjórinn í Reykjavík ætti að draga sig í hlé fyrir aldurs sakir. Í staðinn þarf til skjalanna að koma einhver, sem getur komið skipulagi og aga á liðið. Til dæmis sýslumaðurinn á Ísafirði, sem ekki tvínónaði við að taka á lögregluþjónavandanum þar vestra.

Altjend er orðið tímabært að vernda borgarana fyrir lögreglunni.

Jónas Kristjánsson.

DV