Tíupútnamenn rufu friðinn.

Greinar

Neytendum verður jafnan óglatt, þegar Framleiðsluráð og aðrar einokunarstofnanir landbúnaðarins tjá ást sína á þeim. Svo er einnig nú, þegar ráðið hyggst taka upp framleiðslustjórn á eggjum, auðvitað í þágu neytenda.

Í Tímanum benti greindur framsóknarmaður nýlega á, að neytendur hafa ekki beðið um fyrirhugaðar aðgerðir Framleiðsluráðs. Hann benti líka á, að markmið búskapar geti aldrei orðið annað en að sinna þörfum neytenda.

Hann sagði: “Sé einhver þörf fyrir eggjadreifingarstöð, er það ekki vegna þess að neytendum þyki verðlagið á eggjum of hátt, ekki vegna þess að kvartað hafi verið yfir gæðum á íslenzkum eggjum og ekki vegna þess að kvartað hafi verið yfir eggjadreifingunni.”

Hins vegar hafa neytendur oft haft ástæðu til að kvarta yfir vörum, sem eru undir einokunarvæng Framleiðsluráðs. Skemmt kjöt hefur verið hakkað ofan í neytendur og svokölluð nýmjólk oft verið tíu daga gömul og fúl.

Reynsla þjóðarinnar af svokallaðri framleiðslustjórn í landbúnaði er með endemum. Í reynd miðar hún meðal annars að framleiðslu mjólkur sem lengst frá markaði þéttbýlisins. Í því skyni er beitt verðjöfnun á mjólkurflutningum.

Framleiðslustjórnin byggist á, að hinn endanlega reikning er hægt að senda neytendum og skattgreiðendum, jafnvel þótt undanrenna ofan í sunnlenzka kálfa sé flutt norðan úr landi á flutningskostnaði, sem er hærri en söluverðið.

Elskhugar neytenda í Framleiðsluráði hafa líka misst á prent hugsjónir sínar um, að egg skuli aðeins framleidd á svokölluðum lögbýlum. Þannig eiga kinda- og kúabændur að taka við af núverandi iðnrekendum í greininni.

Þessir makalaust fallega hugsandi einokunarsinnar hafa líka misst á prent hugsjónir sínar um svokallað búmark í eggjaframleiðslu. Það felur í sér, að stórtæk framleiðsla víki fyrir tíupútnaútgerð við annað hvert fjárhús í landinu.

Launamenn landbúnaðarkerfisins keppast um að lýsa yfir, að þeir stefni ekki að einokun á eggjamarkaðnum. En Framleiðsluráð hefur samt ekki veitt Vallá, Holtábúi, Reykjagarði og Nesbúi heildsöluleyfi.

Úr því að ráðið getur ekki stillt sig um að reyna að bregða fæti fyrir þessa stórframleiðendur, sem framleiða ódýrari egg en aðrir, ber Alþingi skylda til að taka leyfisveitingavaldið af ráðinu og það í grænum hvelli.

Annað vald ber einnig að taka af einokunarstofnunum landbúnaðarins. Það er valdið til að taka kjarnfóðurgjald af duglegum framleiðendum og nota það í þágu hinna, sem eru dragbítar. Slík skömmtun er gerspillt.

Ekkert er sjálfsagðara en að tíupútnamenn fái að setja upp eggjadreifingarstöð. Ófrávíkjanleg skilyrði eru þó, að ekki verði notað til þess fé úr kjarnfóðursjóði og að ekki verði hindruð umsvif hinna, sem fást ekki til að vera ómagar á neytendum og skattgreiðendum.

Kominn er tími til, að neytendur og skattgreiðendur taki í karphúsið stjórnmálaflokka á borð við Alþýðubandalagið og Sjálfstæðisflokkinn, sem þora ekki á landsfundum að álykta gegn fyrirhuguðum eggjaglæp Framleiðsluráðs.

Þá er einnig kominn tími til, að neytendur og skattgreiðendur skeri ekki aðeins upp herör gegn eggjaeinokuninni fyrirhuguðu heldur einnig allri núgildandi einokun í landbúnaði. Það er Framleiðsluráð, sem hefur rofið friðinn.

Jónas Kristjánsson.

DV