Létt verk að létta lífið.

Greinar

Krafa launþegasamtaka um 15 þúsund króna lágmarkslaun á mánuði er afar eðlileg. Hún endurspeglar almennan skilning á, að í kreppunni sé brýnast að verja kjör hinna verst settu. En hinir betur megandi geti beðið að sinni.

Einnig er eðlileg ábending atvinnurekenda um, að samningur um 15 þúsund króna lágmarkslaun muni ekki hafa tilætluð áhrif. Prósentuhækkun láglaunafólks verði notuð til viðmiðunar, þegar hálaunafólkið fer að gæta sinna hagsmuna.

Reynslan sýnir, að pennastrik á borð við 15 þúsund leiða til sprenginga upp launastigann. Í kjölfarið koma svo opinberar ráðstafanir í efnahagsmálum og verð bólgusprenging. 15 þúsund króna fólkið sæti eftir með sárt ennið.

Þessi fyrirvari þýðir samt ekki, að vonlaust sé að bæta hag hinna nauðstöddu, sem hafa innan við 15 þúsund króna mánaðartekjur. Slíkt þarf bara að gera á þann hátt, að ekki leiði til sprengingar, sem eyðileggi ásetninginn.

Skynsamlegasta undirbúningsaðgerðin er þegar hafin. Það er könnun Kjararannsóknanefndar á kjörum láglaunafólks. 3.500 spurningalistar hafa verið sendir, og vonað er, að svörin verði komin til baka um miðjan mánuð.

Líklegt er, að könnunin leiði í ljós, að neyðarástandið sé að verulegu leyti bundið við ákveðna þjóðfélagshópa. Kæmi slíkt í ljós, væri tiltölulega auðvelt að beita hliðaraðgerðum til að létta byrðar þessa fólks.

Fyrirfram má gera ráð fyrir, að ástandið sé alvarlegast hjá fjölskyldum, einkum barnafólki, þar sem fyrirvinna launa er aðeins ein og hefur innan við 15.000 krónur á mánuði. Flestir aðrir ættu að geta varizt áföllum.

Reikna má með, að einkennispersóna neyðarástandsins sé einstæð móðir á lágum launum og í dagvinnu einni saman. Það er til dæmis fáránlegt að telja tveggja barna móður geta lifað af 12.000 króna mánaðarlaunum.

Ein aðferðin við að bæta úr þessu er að færa meðlagsgreiðslur nær raunveruleikanum. Þær eru nú svo lágar, að kostnaður við börn leggst að verulegu leyti á foreldrið, sem annast börnin. Það er verulega ósanngjarnt.

1.615 króna meðlag á mánuði með barni er allt of lágt. Þeir, sem slíkt meðlag greiða, sleppa alltof ódýrt. Lögskipað meðlag ætti því að tvöfaldast. Það mundi mjög bæta hag hinna einstæðu mæðra, sem nú ramba á barmi gjaldþrots.

Þetta mundi hafa í för með sér nokkurn kostnað ríkissjóðs, því að sumir geta ekki eða vilja ekki standa við fjárhagslegar skuldbindingar af þessu tagi. En ríkið getur náð því fé í tengslum við hina aðferðina við lausn málsins.

Sú aðferð er fólgin í að breyta niðurgreiðslum í fjölskyldubætur. Niðurgreiðslur eiga á næsta ári að nema rúmum milljarði króna. Þær verða vafalaust mun hærri, því að reynslan sýnir, að þær margsprengja ramma fjárlaga.

Fjölskyldubætur eru miklu áhrifameiri aðferð við að bæta kjör þungra heimila. Þær nýtast betur til kaupa á ódýrum, hollum vörum á borð við fisk og kornmat, svo sem brauði, heldur en niðurgreiðslur á rándýru kjöti og mjólkurvörum.

Með tvöföldum meðlögum og millifærslu niðurgreiðslna yfir í fjölskyldubætur er auðvelt að ná árangri, sem er betri en sem svarar hækkun láglauna upp í 15.000 krónur. Og það gerist án þess að í kjölfarið fylgi launasprenging hálaunafólks og síðan óðaverðbólga.

Jónas Kristjánsson

DV