Sagnalist

Fréttir
Sagnalist

Vel skrifuð saga:
1) Hefur skýran fókus.
2) Vekur persónuáhuga með tilvitnunum, atburðum og dæmum.
3) Setur hraða og stíl, sem hæfir atburði og persónu.
4) Sannfærir notandann um, að sagan sé fullnægjandi og sönn.

Blaðamenn skrifa til að vera lesnir eða hlustaðir. Þeir vita, að notendur fara að gera eitthvað annað, ef sagan er ekki skýr, áhugaverð og vel skrifuð. Góður texti fær fólk til að sjá atburðinn, persónurnar fyrir sér, flytur fólk á staðinn.

George Orwell sagði: “Góður texti er eins og glerrúða.” Hún vekur ekki athygli á sjálfri sér eins og steindi glugginn gerir. Góð saga vekur athygli á því, sem sést gegnum rúðuna, fólkinu í sögunni, atburðinum, upplýsingunum.

Allir vita, hversu erfitt er að finna rétta orðið, sem nákvæmlega hentar þeim aðstæðunum. Walt Whitman sagði: “Hinn fullkomni höfundur lætur orðin syngja, dansa, kyssa, ríða, fæða, blæða, reiðast, stinga, stela, skjóta, stýra, ræna.”

Susan Sonntag sagði: “Lestur kemur yfirleitt á undan skriftum. Áhuginn á skriftum byrjar yfirleitt á lestri. Lestur, ást á lestri er það sem fær þig til að dreyma um að skrifa.”

Þegar Ernest Hemingway var lögreglufréttaritari Kansas City Star tók hann nóturnar með heim og vann við þær klukkutímum saman til að einfalda vitnisburð, þangað til að hafði í fáum orðum náð innihaldi þess, sem vitnið sagði.

Hemingway: Farewell to Arms: “Þegar ég hafði komið þeim út, lokað dyrunum og slökkt ljósið, var það alls ekki gott. Það var eins og að kveðja styttu. Nokkru síðar fór ég út og yfirgaf sjúkrahúsið og gekk til hótelsins í rigningunni.”

Hemingway aftur: Across the River: “Það er mikið súrefni í loftinu hér, hugsaði hann. Sneri andlitinu í vindinn og andaði djúpt. Svo opnaði hann dyrnar á Harry’s Bar. Hann var kominn inn. Hann hafði náð því aftur. Hann var kominn heim.”

Thomasine Berg við Providence Journal: “Helstu spurningarnar eru: Er þetta áhugavert. Hreyfir það við, snertir það, æsir það, kitlar það, vekur það undrun, veldur það sorg, fræðir það? Ef svo er, þá ertu með nammi, góðan lestur.”

Blaðamenn þurfa að skrifa rétt í miklum flýti. Þeir þurfa að ná sannleikanum saman í skýrum texta í tæka tíð fyrir lokun. Til að skrifa skýrt þarf að skilja málið. Þú getur ekki byrjað að skrifa fyrr en þau veist, hvað þú ætlar að skrifa.

Skrifaðu ekki til að skrifa. Skrifaðu til að koma upplýsingum á framfæri. Lesendur vilja staðreyndir, nákvæmni og góða sögu. Spurðu þig, hvort orðin passi við raunveruleikann. Hemingway skrifaði lokaorð A Farewell to Arms 39 sinnum.

Leo Tolstoy lýsir Stríði og friði: “Ég segi ekki, ég útskýri ekki, ég sýni, ég læt persónurnar tala fyrir mig.” Þetta er blaðamaður að gera á hverjum degi, sýna fólki, mála mynd fyrir það, láta fólk sjá það, sem hann hefur áður séð.

Upphaflega var skrifað: “Járnbrautin í Chicago náði athyglisverðu meti í janúar, skilaði hagnaði.” Rétt er: “Járnbrautin í Chicago náði meti í janúar, skilaði hagnaði.” Það er lesandans, en ekki þitt að ákveða, hvort það sé athyglisvert”.

Henry James sagði, að “gramm af dæmi er jafngildi tonns af almennu orðalagi”. Frederick C. Othman sagði, að gott sé að nota eins mikið af persónulegum orðum, hann, hún, frændi, drengur o.s.frv. og hægt er að koma fyrir í sögunni.

Góðir höfundar láta orðin og atburðina vinna fyrir sig. John Ciardi sagði: “Láttu það gerast, talaðu ekki um, að það gerist.” Þegar blaðamaður gerir það, hverfur hann sjálfur úr sögunni og lesandinn, hlustandinn, áhorfandinn fara inn í hana.

Segðu ekki, að ýmislegt hafi verið í þýfinu. Segðu, að það hafi verið sundbolur, silkiklútur og hárkolla. Segðu ekki, að konan hafi verið sorgmædd. Segðu, að hún hafi hallað höfðinu á öxl mannsins. Notaðu sértæk orð í stað almennrar lýsingar.

Grein Gay Talese í Esquire um Frank Sinatra byrjaði svona: “Frank Sinatra hélt á búrbón í annarri hendi og sígarettu í hinni, stóð í dimma horninu á barnum milli tveggja fölnandi blómarósa, sem biðu eftir, að hann segði eitthvað.”

Tíu leiðbeiningar um góðan stíl:
1) Vertu viss um, að þú skiljir atburðinn.
2) Farðu að skrifa, þegar þú hefur fundið fókusinn.
3) Sýndu okkur, segðu okkur ekki.
4) Settu góðar tilvitnanir og persónuáhuga ofarlega í söguna.
5) Settu útskýringar og örsögur ofarlega í söguna.
6) Notaðu markviss nafnorð og lýsandi sagnorð.
7) Forðastu lýsingarorð og atviksorð til stuðnings sagnorðum.
8) Forðastu dóma og ályktanir. Láttu staðreyndirnar tala.
9) Ekki setja fram spurningar, sem ekki er svarað í textanum.
10) Skrifaðu einfalt, gagnort, heiðarlegt, hratt.

Þegar notaður er frestaður inngangur, er það venjulega mannleg atriði, sem koma fremst. Lísa í Undralandi sagði: “Hvað er bók án mynda og samtala”. Blaðamaður lætur örsögur koma í stað mynda og tilvitnanir í stað samtala.

Blaðamaður skrifar: “Ástæðan fyrir, að hinn bandaríski drengur tekur fegurð fram yfir greind er, að hann sér betur en hann hugsar.” Eða: “Settu þrjú korn af ryki inn í dómkirkju og hún verður þéttari af ryki en geimurinn er af stjörnum.”

Anne Hull hjá Washington Post: “Notaðu ekki venjuleg orð. Finndu annað. Virtu hvert orð fyrir þér og notaðu annað, sérstaklega ef það er sagnorð. … Blaðamenn hafa oft ekki sjálfstraust til að reyna annað orð.” Sum virka, önnur ekki.

Charles Dickens lýsir persónum þannig, að þær grafast inn í hug þér. Þér finnst hafa lýst hverju smáatriði, en við nánari athugun kom í ljós, að hann notar bara tværþrjár setningar. Afgangurinn af lýsingunni kom í ljós í samtölum bókarinnar.

“Þetta var í miðbænum, einn af nýju skýjakljúfunum, þar sem teppið í anddyrinu er svo þykkt að þú fellur um það og veggirnir eru svo þunnir, að þú heyrir pípurnar ryðga. Skrifstofan var á 21. hæð við endann á löngum gangi. Ég barði að dyrum.”

Þetta er ekki upphaf glæpasögu eftir Dashiell Hammett. Þetta er upphaf fréttar eftir Carey Winfrey í New York Times um raunverulegan einkaspæjara. Hann er að reyna að setja lesandann inn í andrúmsloft skrifstofunnar hjá spæjaranum.

Cicero segir um ræðusköruginn: “Hvað sem hann talar um, þá er það við hæfi, ekki of magurt, þegar efnið er feitt, ekki of feitt, þegar efnið er magurt, ekki á einn veg, þegar efnið krefst annars vegar, röddin hæfir málefninu og nægir því.”

“Kenneth Richardson, 16 ára, var drepinn í gær út af linum, brúnum hatti, sagði lögreglan. “Það var bara gamall hattur”, sagði Hugo Gomez hjá lögreglunni. Richardson bar hann. Einhver reyndi að taka hann. Richardson neitaði.”

Af því að blaðamenn hafa lítið pláss, verða þeir að nota orð, sem skipta máli, orð sem hratt og örugglega mála mynd. Það er áhrifamest, þegar blaðamaðurinn notar orð, þar sem aðalmerking og aukamerking kallast á. Dæmi:

Fyrirsögn í Daily News átti að vera “Ford neitar borginni um aðstoð”. Síðan varð hún “Ford segir nei við borgaraðstoð”. Niðurstaðan varð hins vegar: “Ford við borgina: Drop dead” Þetta vakti athygli, náði fyrirlitningu Fords á borginni.

Dálkahöfundar geta látið gamminn geisa. Molly Ivins um stjórnmálamann: “Ef hann hefði lægri greindarvísitölu, yrði að vökva hann tvisvar á dag.” Um annan mann digran sagði hún: “Hann er með bjórvömb, sem á heima á Smithsonian safninu.”

Primo Levi: “Ég taldi, að frásögn mín mundi vera trúverðugri og gagnlegri, ef hún virtist hlutlæg, ekki of tilfinningasöm. Aðeins þannig getur vitni fyrir rétti unnið það verk sitt að búa dómarann undir málið. Dómararnir eru lesendur mínir.”

Spakmæli um skriftækni: William Safire: “Stundum missir augað athygli á tilgangi og innihaldi, ef það er upptekið af tækni.” Joyce Carol Oates: “Tæknin flytur lesanda frá málsgrein til málsgreinar, en aðeins innihald helst í huga hans.”

Ritstíll blaðamanna hefur verið að breytast fyrir áhrif frá Tom Wolfe og öðrum, sem hafa ólátast í glervörubúðinni. Það heitir Nýja Blaðamennskan og hún reiðir sig á frásagnarstíl, leggur áherslu á það mannlega, samtöl, senur og spennu.

Ykkur kann að finnast ég vera að tala um prentað mál. Samt á þetta við um alla miðla. En skrif fyrir útvarp og sjónvarp hafa sérstakar þarfir, þau eru þéttari. Þau þurfa að grípa strax. Smáatriðin eru færri, flækjur sögunnar minni.

Þar fyrir utan skrifar sjónvarpsmaðurinn með myndum, sem tala sjálfar sínu máli, en dagblaðsmaðurinn þarf hins vegar að mála mynd með orðum. Nánar verður um þetta í níunda kafla.

Sum fjölmiðlafyrirtæki eru farin að nota samræmdan stíl fyrir allar tegundir fjölmiðla. Algengara er þó, að blaðamaðurinn skrifi sérstaka útgáfu fyrir hvern fjölmiðil. Það þýðir, að hann þarf að þekkja þarfir hvers miðils fyrir sig.

Margt gerist áður en byrjað er að skrifa. Góður texti rís á góðri blaðamennsku og skýrri hugsun. Texti getur ekki falið fátæklegar staðreyndir, myglaðar lýsingar eða tilfinningaleysi fyrir fólki. En vondur texti spillir góðri blaðamennsku.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé