Sveitarfélögin svikust um.

Greinar

Sveitarfélögin í landinu, með Reykjavík í broddi fylkingar, hafa ekki lagt sitt af mörkum í baráttunni við verðbólguna. Sérstaklega hafa þau svikizt um að svíða fjárhagsáætlanir sínar til að halda niðri skattbyrði ársins.

Munurinn á framgöngu ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar kemur vel fram í þeim hundraðshluta skatta, sem mönnum er ætlað að reiða fram í svonefnda fyrirframgreiðslu opinberra gjalda á fyrri hluta ársins.

Niðurstöðutölum fjárlaga ríkisins hefur verið haldið svo mikið niðri, að ríkinu hefði nægt 57% fyrirframgreiðsla. Sveitarfélögin þurfa hins vegar 68% í sína hít, svo að millileiðin upp á 63% varð fyrir valinu.

Í meðförum fjárlagafrumvarpsins var áætluð tekjuhækkun manna milli ára lækkuð úr 20% í 16%, sem er mun nær réttu lagi. Þjóðhagsstofnun gerir einmitt ráð fyrir, að atvinnutekjur og ráðstöfunartekjur hækki um 16% milli ára.

Í þessum tölum er gert ráð fyrir ótryggu launaskriði. Stofnunin gerir ekki ráð fyrir, að kauptaxtar hækki nema um 13% milli ára. Margir munu ekki geta reiknað með neinu launaskriði ofan á þá prósentutölu.

Hér er rétt að minna á, að þessi hækkun kauptaxta milli ára er að mestu leyti þegar komin fram. Þjóðhagsstofnun reiknar aðeins með 4% hækkun yfir árið í heild.

Af þessu má ljóst vera, að þeir, sem ekki njóta launaskriðs að ráði eða tilfærslu skattbyrðar frá láglaunafólki til hálaunafólks, munu bera nokkru þyngri skatta til ríkisins á þessu ári en á hinu síðasta.

Munurinn er þó svo lítill, að ekki er hægt að neita því, að ríkisstjórnin hefur með fjárlögum sínum gert markvissa tilraun til að hlífa hart leiknu láglaunafólki við aukinni skattbyrði ofan á aðrar kárínur vetrarins.

Grimmdin í niðurskurði ríkisútgjalda átti sér enga hliðstæðu í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga. Sveitarstjórnarmenn veinuðu um slæma afkomu sveitarsjóða, en höfðu færri orð um slæma afkomu heimila útsvarsgreiðenda.

Ef útsvarsbyrði hefði átt að verða óbreytt milli ára, hefði álagningarprósentan orðið að lækka úr 11,9% í 9,5% eða úr 11% í 9%, svo að algeng dæmi séu nefnd. Mjög fá sveitarfélög lækkuðu sig og ekkert í þessum mæli.

Í Reykjavík verður útsvarsprósentan í ár 11% og í flestum öðrum sveitarfélögum Reykjavíkursvæðisins verður hún 10,5%. Yfirleitt eru þetta sömu tölur og í fyrra og jafngilda verulega þyngdri útsvarsbyrði á þessu ári.

Þessi skortur á aðhaldi og sparsemi í eigin rekstri er sveitarfélögum landsins til skammar. Þeim ætti ekki að vera vandara um en öðrum aðilum þjóðfélagsins að skera svo niður útgjöldin, að undan svíði.

Sem skýring á nöturlegri forystu Reykjavíkur í of harðri skattheimtu á erfiðum tímum hefur verið nefnt, að borgin axli þungar fjárhagsbyrðar af Grafarvogslóðum, sem ekki hafa gengið út. Slík mistök eru náttúrlega ekki til bóta.

Sveitarfélögum ber ekki skylda til að fylgja ríkisstjórnarstefnu á hverjum tíma. En þau verða auðvitað að sæta því, að almenningur telji þau ekki hafa staðið sig sem skyldi, þegar allir aðrir hertu sultarólarnar.

Jónas Kristjánsson.

DV