Þúsund glötuð störf.

Greinar

Um áramótin voru 1.868 konur og 1.490 karlar atvinnulaus hér á landi. Samtals eru þetta 3.358 manns eða um 3% af öllum mannaflanum. Þetta eru mun hærri tölur en sézt hafa í mörg undanfarin ár og fela í sér aðvörun.

Í samanburði við útlönd er 3% ekki há tala. En hún er ekki í okkar stíl. Hún er ekki í samræmi við stefnu fullrar atvinnu, sem hefur verið einn af hornsteinum stjórnmálaflokka og ríkisstjórna á Íslandi um langt skeið.

Hlutfall, sem var 2% í fyrra og er 3% um þessar mundir, getur verið komið upp í 4% eftir ár. Senn getur liðið að því, að hér myndist stétt, jafnvel ættgeng stétt atvinnuleysingja, utangátta í þjóðfélaginu og án umtalsverðrar vinnuvonar.

Slíkt ástand þurfum við umfram allt að forðast. Við sjáum í öðrum löndum, hvílík breiðfylking félagslegra vandamála fylgir kerfislægu atvinnuleysi, einkum hjá ungu fólki, sem aldrei hefur haft vinnu og hefur enga von um hana.

Upp að vissu marki eru tölur um atvinnuleysi marklitlar. Á móti þeim vega mörg laus störf, sem ekki er hægt að fylla, einkum í nútímalegum atvinnugreinum, þar sem sérþekkingar er krafizt. Atvinnuauglýsingar blaðanna sýna þetta.

Misræmið er eðlileg afleiðing sífelldra breytinga á atvinnuháttum landsmanna. Aðlögunin tekur alltaf tíma. Þess vegna er fólk atvinnulaust á einu sviði á sama tíma og starfskrafta vantar á öðrum sviðum.

Aukna atvinnuleysið hér á landi stafar nær eingöngu af minnkun fiskistofna og tilheyrandi aflabresti. Sennilega hafa um þúsund störf glatast af þessari ástæðu og kemur það afar þungt niður á mörgum sjávarplássum.

Nú er verið að reyna að skipuleggja sjávarútveginn að nýju. En kvótakerfi eða eitthvert annað kerfi breytir ekki aflabrestinum. Hann er staðreynd, sem mun fylgja okkur næstu árin, því að langan tíma tekur að vinna stofnana upp að nýju.

Þjóðfélagið þarf því að finna um þúsund ný og arðbær störf í stað þeirra, sem glatazt hafa í sjávarútvegi. Og þetta er hrein viðbót við þau tvö þúsund störf, sem finnast þurfa á ári hverju til að mæta aukningu mannafla.

Það gerist ekki í landbúnaði. Verulegur hluti hans, kinda- og kúabúskapurinn, er ekkert annað en dulbúið atvinnuleysi, sem ríkið rekur með margfalt meiri tilkostnaði en það mundi hafa af tilsvarandi atvinnuleysisbótum.

Aukningin þarf að vera í iðnaði og margvíslegri þjónustu, sem óhjákvæmilega fylgir iðnþróun. Þar er von okkar um, að full atvinna verði í framtíðinni eins og hún var til skamms tíma. Þar er nýgræðingurinn, sem þjóðin þarf að hlúa að.

Gengislækkunin í fyrrasumar og endurteknar kjaraskerðingar valda bættri samkeppnisaðstöðu íslenzks iðnaðar á innlendum og erlendum vettvangi og auknu bolmagni hans til að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum.

Ef fyrirtæki hagnast, hvort sem það stafar af kjaraskerðingu eða öðru, getur það aukið fjárfestingu sína í vélum, tækjum og öðrum búnaði, sem skapar nýja atvinnu. Þetta er jákvæða hliðin á annars neikvæðri kjaraskerðingu.

Við verðum að vona, að það, sem þegar hefur harkalega verið gert, dugi til að tryggja að fullu nýja atvinnu og bægja frá okkur vandamálum atvinnuleysis, sem við sjáum við sjóndeildarhringinn. Þá munu lífskjörin smám saman batna af sjálfu sér á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson.

DV