Þegar ísinn varð ódýr.

Greinar

Þegar sjálfstæð ísgerð utan kerfis tók til starfa á sínum tíma, hætti ísinn frá Mjólkursamsölunni að hækka í takt við aðrar mjólkurvörur. Á nokkrum árum breyttist mjólkurís úr dýrri einokunarvöru í ódýra samkeppnisvöru.

Ekki er vitað, hvort mjólkurísinn var seldur of dýrt á sínum tíma eða er seldur of ódýrt um þessar mundir. Athugun á bókhaldi samsölunnar hefur sýnt, að ekki er unnt að greina skiptingu kostnaðar milli einstakra afurða.

Enginn veit, hvort kostnaður við bíla, sem flytja mjólkurvörur til smásölunnar, skiptist í réttum hlutföllum á vörurnar. Enginn veit, hvort ísinn er fluttur á kostnað mjólkurinnar, sem síðan er verðreiknuð á neytendur.

Vélakostur samsölunnar er bæði notaður til að pakka mjólk og ávaxtasafa. Engin leið er að átta sig á, hvort fjármagnskostnaðurinn hefur lent í eðlilegum hlutföllum á safa og mjólk, sem er verðreiknuð á neytendur.

Um ávaxtasafann gildir svo hið sama og um ísinn. Hann er fluttur með sömu bílum og mjólkin, án þess að bókhaldslega séu nein mörk dregin milli kostnaðar af hverri afurð fyrir sig. Slíkt er þó gert annars staðar á Norðurlöndum.

Í reikningum samsölunnar er fjármagnskostnaður, sem meðal annars hefur verið notaður til að kaupa stórvirkar vélar til brauðgerðar. Enginn veit, í hvaða mæli þessi kostnaður hefur lent í verðreikningi á mjólk til neytenda.

Um brauðið gildir líka hið sama og um ísinn og safann. Það er flutt í verslanir með samgöngutækjum fyrirtækisins, án þess að nokkur viti, hver sé eðlileg hlutdeild brauðsins í flutningskostnaði frekar en öðrum tilkostnaði.

Ástæðulítið er að gera því skóna, að samsalan misnoti þessa sérstöðu á vísvitandi hátt. En dæmið um ísinn sýnir, að við skort á bókhaldslegum upplýsingum er freistandi að hafa lágt verð á hliðarafurðum á samkeppnismarkaði.

Sá markaður ákveður, hvaða verð samsalan getur sett á ís, ávaxtasafa og brauð. Sé þetta verð undir tilkostnaði, fer mismunurinn í verðreikning á mjólkinni, sem síðan er seld neytendum á útreiknuðu einokunarverði.

Skoðun á bókhaldi samsölunnar og nokkurra annarra mjólkurbúa bendir einmitt til, að kostnaður við vinnslu mjólkur sé tiltölulega hátt metinn í samanburði við rjóma og smjör, hugsanlega af hreinu athugunarleysi.

Þessi sama athugun hefur einnig leitt í ljós, að kostnaður við mjólkuriðnað hefur aukist meira en almennt verðlag í landinu síðan 1975 og að starfsfólki hefur fjölgað þar þrátt fyrir minnkað framleiðslumagn.

Dæmið af samsölunni sýnir vel, hversu sjúklegt er að búa við einokun á afmörkuðum sviðum. Verð á einokunarvörum hneigist til hækkunar, meðal annars til að halda uppi samkeppni á öðrum sviðum, án tilheyrandi framleiðni.

Mjólkursamsalan er nú í skjóli einokunar að reisa eina stærstu höll landsins. stofnkostnaður báknsins verður reiknaður inn í mjólkurverðið, því að samsalan þarf áfram að hafa brauðið, safann og ísinn á samkeppnishæfu verði.

Engin leið er að komast að hinu rétta í kostnaðar- og markaðsverði einokunarafurða, nema veitt sé verslunarfrelsi, þar á meðal í sölu milli landshluta og milli landa. Á þann hátt einan fæst aðhaldið sem nú skortir.

Þannig verða vörur ódýrar eins og ísinn.

Jónas Kristjánsson.

DV