Grínistar verðlaunaðir.

Greinar

Helzti kostur aflakvótastefnunnar er, að hagsmunaaðilar eru í stórum dráttum fylgjandi henni og báðu raunar um hana. Þess vegna má búast við, að þeir styðji hana í verki og að afli haldist innan skynsamlegra marka.

Einnig má búast við, að aflakvótastefnan lækki útgerðarkostnað. Hún gefur útgerðarmönnum svigrúm til að draga úr olíunotkun og halda öðrum sóknarkostnaði í lágmarki. Þessi kostur er þjóðhagslega mikilvægur.

Loks fylgir stefnunni, að leyfilegt er að auka enn hagkvæmnina með því að færa kvóta milli skipa. Sjávarútvegsnefndir alþingis hafa þó dregið úr þessum kosti með því að setja skorður við flutningi kvóta milli verstöðva.

Þrátt fyrir hina ýmsu kosti er aflakvótastefnan engin himnasending. Hún eykur hættuna á, að smáfiski verði kastað í sjóinn til að nýta aflamarkið betur. Og hún eykur hættuna á, að fiski verði smyglað framhjá vigtun og þar með framhjá kvóta.

En reynslan sýnir líka, að skipulagning vandamála er alltaf tvíeggjuð. Við tilfæringar á borð við aflakvóta eru ný vandamál búin til um leið og önnur eru leyst. Og þetta gerist því fremur sem meira er kippt úr sambandi markaðslögmálum.

Til dæmis virðist mönnum hætta til að gleyma, hver er hinn raunverulegi vandi, sem varð tilefni aflakvótastefnunnar. Fiskiskipaflotinn var orðinn of stór í hlutfalli við þann afla, sem óhætt er að taka úr fiskistofnunum.

Þann vanda mátti leysa með því að skipuleggja hann ekki, heldur láta hann í friði. Vandann mátti leysa með því að leyfa útgerð mestu vanskilaskipanna að verða gjaldþrota, svo sem tíðkast í flestum öðrum atvinnuvegum.

Af minni togurunum er rúmlega helmingurinn annað hvort utan sjóðakerfis, í fullum skilum við það eða næstum því í fullum skilum. Þá eru eftir 38 skip. Af þeim eru svo aftur átta, sem skulda helming allra vanskilanna.

Þetta eru skipin, sein hafa verið smíðuð innanlands á síðustu þremur árum. Þeim hefur verið bætt við flotann, þótt öllum hafi verið ljóst í að minnsta kosti sex ár, að flotinn væri of stór og að nýju skipin mundu ekki bera sig.

Ábyrgðina bera stjórnmálamennirnir, Fiskveiðasjóður og útgerð þessara skipa. Stjórnmálamenn verða ekki dregnir til ábyrgðar frekar en endranær. Og allra sízt verða sjávarútvegsráðherrar Framsóknarflokksins gerðir ábyrgir!

“Þetta hefur lengi verið glórulaust dæmi,” sagði einn þessara útgerðarmanna í blaðaviðtali um daginn. Slík glórulaus dæmi eiga auðvitað að fá að eiga sína eðlilegu og heilbrigðu niðurstöðu í formi gjaldþrots.

Fiskveiðasjóði er þetta tapað fé. Eitt skipið skuldar sjóðinum hærri upphæð en sem nemur tryggingarverðmæti þess. En það er líka ósköp eðlilegt, að glórulaus lánastefna leiði til tjóns fyrir þennan lánveitanda eins og aðra.

Í stað þess að fara þessa leið, sem tíðkast í venjulegu atvinnulífi, eru sjávarútvegsráðherra og aðrir stjórnmálamenn að gamna sér við að gefa hinum glórulausu eftir skuldirnar að meira eða minna leyti, – verðlauna skussana.

Afleiðingin verður, að útgerð grínistanna leggst ekki niður. Hún mun áfram standa í vegi heilbrigðrar útgerðar, sem getur staðið í skilum. Hún mun áfram koma í veg fyrir meiri nýtingu skipa, sem standa undir sér.

Þannig nær aflakvótastefnan ekki tilgangi sínum.

Jónas Kristjánsson

DV