Opni víxillinn.

Greinar

Hinn opni víxill, sem Albert Guðmundsson fjármálaráðherra hefur samþykkt og afhent Guðmundi J. Guðmundssyni, formanni Dagsbrúnar, mun vafalaust draga dilk á eftir sér, jafnvel þótt ríkisstjórnin treysti sér til að hafna honum.

Albert hefur hvað eftir annað gagnrýnt ráðagerðir á þeim forsendum, að ekki sé ljóst, hvaða áhrif þær muni hafa á afkomu ríkissjóðs. Samt viðurkennir hann núna, að hann hafi ekki hugmynd um, hvaða tölur verði skrifaðar á víxilinn.

Þetta eru náttúrlega ekki traustvekjandi vinnubrögð, enda koma þau mörgum í opna skjöldu. Samráðherrar hans hafa almennt lýst andstöðu við víxilinn, svo og talsmenn sveitarstjórna. Engin samráð voru höfð við neinn af þessum aðilum.

Bent hefur verið á, að hjá Reykjavíkurborg einni starfi fjórum sinnum fleiri félagsmenn Dagsbrúnar en hjá ríkinu. Með víxli Alberts er því óbeint verið að efna í mun dýrari víxil hjá aðila, sem ekkert fékk um málið að segja.

Verra er þó, að samkomulag Alberts og Guðmundar er alvarlegasta áfallið, sem samkomulag heildaraðila vinnumarkaðsins hefur sætt. Það ógnar anda og innihaldi þess samkomulags og hótar að brenna kjarabætur þess í nýrri verðbólgu.

Heildarsamkomulagið byggðist á, að í rannsókn höfðu fundizt þeir, sem erfiðust höfðu lífskjörin. Það voru ekki hinir virku verkfallasinnar í Dagsbrún, heldur einstæðar mæður, barnmargar fjölskyldur, gamalt fólk og öryrkjar.

Í grein í Þjóðviljanum í fyrradag skýrði Guðrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri blaðsins, með ljósu dæmi, hvernig fyrri viðmælandi blaðsins, einstæð bankakona með tvö börn, fengi um 25% lífskjarabót úr heildarsamningunum.

Guðrún veitti Þjóðviljanum réttilega ráðningu fyrir ómerkilegar talnablekkingar og Jóhönnu Kristjónsdóttur, formanni félags einstæðra foreldra, ekki síður verðskuldaða ráðningu fyrir að kalla heildarsamningana froðu.

Í fyrsta sinn í manna minnum hefur sérstaklega verið gætt hagsmuna þeirra, sem minnst mega sín og jafnan hafa átt fæsta talsmennina. Þeir fá um og yfir 20% lífskjarabætur á sama tíma og aðrir fá 5% í sinn hlut.

Auðvitað er ljóst, að þeir, sem fá 5%, hefðu fengið meira, ef ekki hefði verið gætt sérstaklega hagsmuna hinna bágstöddu. Margir hinna virku í félögum launamanna eru sáróánægðir með sinn hlut í útkomunni.

Þetta hefur leitt til, að sums staðar hafa heildarsamningarnir ýmist verið felldir eða samþykktir gegn mótatkvæðum fjölmenns minnihluta. Einnig munu félög uppmælingaraðals sem fyrr reyna að auka lífskjarabilið í landinu.

Til skamms tíma hefur þótt ólíklegt, að óánægja hinna virku í Dagsbrún og félögum uppmælingaraðals muni leiða til verkfalla, nema þá í svarinni andstöðu við óskir mikils fjölda almennra félagsmanna, sem vilja fá að vera í friði.

Opni víxillinn í fjármálaráðuneytinu er hins vegar til þess fallinn að opna málið á nýjan leik og styrkja stöðu þeirra, sem gefa lítið fyrir lífskjarabætur smælingjanna og vilja ná þeim bótum til hinna, sem fengu 5%.

Þótt ríkisstjórnin kunni að hafa manndóm til að hafna víxlinum, er samt orðið af honum tjón. Ekki er ljóst, hversu alvarlegt það verður. En vonandi ber þjóðin gæfu til að verja mannúðar- og velferðarstefnu heildarsamninganna gegn verðbólgu.

Jónas Kristjánsson.

DV