Loforð er loforð.

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ekkert raunhæft gert til að efna eitt kosningaloforða Framsóknarflokksins og helzta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins. Þak yfir höfuðið er nú jafnfjarlægur draumur og það var, þegar stjórnin tók við völdum.

Fyrir kosningar voru stjórnarflokkarnir og raunar fleiri aðilar sammála um stóraukna fjármögnun húsbygginga. Oftast var talað um heildarlán, sem næmu 80% af verði staðalíbúðar og væru til 40 ára með 2,5% raunvöxtum.

Loforðin voru viðurkenning á, að það væri réttmæt krafa kjósenda, að ungu fólki yrði á nýjan leik gert kleift að byggja, svo sem var fyrir hálfum öðrum áratug, áður en verðbólgan stökk úr 10% á ári upp í himinhæðir.

Sofandaháttur margra undangenginna ríkisstjórna hefur dregið mjög úr kjarki unga fólksins. Það treystir sér ekki lengur til að eignast þak yfir höfuðið. Sjálfseignarstefnan hefur rotazt á síðasta hálfum öðrum áratug.

Nú flykkist unga fólkið þúsundum saman í félag um búseturétt í leiguíbúðum. Það vonast til að fá þar svipuð kjör og veitt eru í félagslega lánakerfinu, sem eru stórkostlega miklu betri en þau, er Pétur og Páll þurfa að sæta.

Engin sérstök ástæða er til að ætla, að sú hugarfarsbreyting hafi orðið með þjóðinni, að hún taki búseturétt í leiguíbúð fram yfir íbúðareign. Hroðaleg meðferð stjórnvalda á eignarstefnunni er nægileg skýring á búseturéttaráhuganum.

Í sjálfu sér á ekki að vera nauðsynlegt að deila um, vort fólk vilji fremur kaupa eða láta sér nægja búseturétt. Aðalatriðið er, að því séu boðnir ýmsir möguleikar, allir með sams konar fjármögnun af opinberri hálfu.

Sumir vilja byggja sjálfir, sumir með öðrum í samvinnufélagi, sumir kaupa einir eða með öðrum og loks vilja sumir taka á leigu, ef þeir hafa tryggan búseturétt. Öll sjónarmiðin hafa sinn rétt og eiga ekki að sæta mismunun stjórnvalda.

Meðan fáeinir útvaldir njóta sérstakra kjara í kerfi félagslegra íbúða og aðrir þurfa að sæta kjörum, sem gera einkaeign óbærilega, er engin furða, þótt viðleitni til sjálfsbjargar verði útundan í þjóðfélaginu.

Nú eru sagðar hryllingssögur af erfiðleikum og þrældómi þeirra, sem eyði beztu árum ævinnar í misheppnaða tilraun til að eignast þak yfir höfuðið. Þessar sögur hafa síazt inn og dregið mátt og kjark úr fólki.

Því miður eru þessar sögur margar hverjar sannar. En það jafngildir ekki, að það sé lögmál, að fólk eyðileggi sig á eignarstefnu í húsnæðismálum. Með 80% lánum til 40 ára með 2,5%. raunvöxtum á fólk að geta byggt áfallalaust.

Brýnasta verkefni stjórnvalda í húsnæðismálum er ekki að fjölga þeim smám saman, sem njóta forgangskjara, heldur hækka og bæta almennu lánin upp á svipað stig og það í nokkrum myndarlegum stökkum á ekki allt of mörgum árum.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar klúðrað málinu svo, að fjármögnun húsnæðislánakerfisins er ýmissi óvissu háð. Fjárlög hennar og lánsfjárlög einkennast af takmarkalítilli óskhyggju, sem ekki mun rætast að fullu.

Ríkisstjórnin verður nú að taka í hnakkadrambið á sjálfri sér og gera húsnæðisdæmið að forgangsverki. Svik hennar við kjósendur eru alvarlegust á þessu sviði. Og ekki er síður alvarleg aðför hennar að sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson.

DV