Eftirlitið verður dýrt.

Greinar

Flest bendir til, að borgarstjórn Reykjavíkur sé komin á fremsta hlunn með að leyfa takmarkað hundahald í borginni. Er henni þó ljóst, að í skoðanakönnunum hefur yfirgnæfandi meirihluti manna verið andvígur hundahaldi í þéttbýli.

Ekki komu á óvart tölur síðustu könnunarinnar, sem gerð var í upphafi þessa vetrar. Þá reyndust 70% manna vera andvíg hundahaldi í þéttbýli og 24% fylgjandi. Aðeins 6% höfðu ekki skoðun á málinu og er það óvenjulega lág tala.

Niðurstaðan var hin sama og í fyrri könnunum. Hún er, að Íslendingar hafa skoðun á hundahaldi í þéttbýli og eru andvígir því, þrír á móti einum. Aukið hundahald í nágrenni Reykjavíkur hefur ekki breytt þessu eindræga almenningsáliti.

Hins vegar fara hundaeigendur sínu fram án tillits til almenningsálitsins. Í Reykjavík eru nokkur hundruð ólöglegra hunda. Yfirvöld hafa ekki treyst sér til að framfylgja hundabanni, nema hundar hafi beinlínis verið kærðir.

Í tölum leit dæmið þannig út í fyrra, að hundaeigendur greiddu samtals 279.500 krónur í 49 dómsáttum og 26 hundar voru aflífaðir. Þess vegna leita borgaryfirvöld að einhverri annarri lausn en hreinu hundabanni.

Eðlilegt er, að þau beini sjónum til sveitarfélaganna í nágrenninu, þar sem leyft hefur verið takmarkað hundahald. Þar hefur fengizt nokkur reynsla, sem getur verið borgarstjórn til leiðbeiningar við stefnubreytingu.

Rétt er þó að benda á, að í nágrannabæjum Reykjavíkur, Garðabæ, Mosfellssveit og Seltjarnarnesi, er byggðin mun gisnari en í Reykjavík. Þar er meira svigrúm fyrir hunda en er á flestum stöðum í höfuðborginni.

Hundahaldið hefur leitt til margvíslegra vandamála, þrátt fyrir svigrúmið. Helzta vandamálið er, að sumir hundaeigendur taka ekkert mark á reglum um hundahald og haga sér eins og þeir séu einir í heiminum.

Þetta hefur leitt til, að hundar ganga lausir og eru ekki í fylgd með fólki, sem hefur fullt vald yfir þeim. Sveitarstjórnarmenn, sem ábyrgðina bera, gera lítið úr vandamálinu og telja ranglega allt vera í fínu lagi hjá sér.

Hugsanlega yrði ástandið skárra, ef meiri vinna yrði lögð í eftirlit með hundahaldi. Ekki er nægilegt að hafa mann í hálfu starfi til eftirlits í bæjarfélögum, þar sem eru um og yfir 100 hundar. Til slíks þarf heilan mann.

Aukið eftirlit kostar peninga. Þær 1.600 og 1.500 krónur, sem hundaeigendur greiða í Mosfellssveit og á Seltjarnarnesi, eru ekki nema helmingur af því, sem vera þyrfti til að halda í skefjum þeim vandamálum, sem fylgja hundahaldi.

Fáránlega lág er tillaga Hundaræktarfélags Íslands um 500 króna árgjald fyrir hunda í Reykjavík. Hún endurspeglar á einkar skýran hátt, hversu erfitt áhugamenn um hundaeign eiga með að átta sig á vandamálunum.

Hætt er við, að ráðgjöf af 500 króna taginu, svo og ástæðulaus sjálfsánægja sveitarstjórnarmanna í nágrenni Reykjavíkur, valdi því, að borgarstjórn telji sér trú um, að hundahald í borginni verði vel viðráðanlegt vandamál.

Ef borgarstjórn treystir sér ekki til að fara að vilja yfirgnæfandi meirihluta borgarbúa, þarf hún að minnsta kosti að tryggja fjármagn til nægilegs eftirlits með því takmarkaða hundahaldi, sem leyft yrði. Og nægilegt eftirlit verður dýrt eftirlit.

Jónas Kristjánsson.

DV