Rangt er að tala um viljugar eða vígfúsar þjóðir, þegar Bandaríkin leita sér vopnabræðra gegn Sýrlandi. Listinn nær yfir rúman tug viljugra eða vígfúsra ríkja. Þjóðir þessara ríkja eru að miklu leyti andvígar árásum á Sýrland, meira að segja Bandaríkjamenn. Í fréttum þarf að gera greinarmun á þjóðum, sem eru fólk; löndum, sem eru landsvæði; og ríkjum, sem eru valdastofnanir. Þjóðir, lönd og ríki eru mismunandi hugtök, sem vísa til mismunandi atriða. Tungumál fela í sér tugþúsundir orða, til þess að hugsun geti orðið nákvæm. Ruglingur hugtaka leiðir til loðinnar hugsunar og gerir staðreyndir óljósar.