Nýr hlekkur átthagafjötra.

Greinar

Fyrir Alþingi liggur stjórnarfrumvarp um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. Þar sem þetta er stjórnarfrumvarp, má reikna með, að það verði senn að lögum. Enda eru báðir stjórnarflokkarnir hlynntir því, að sem mest sé af kúm og kindum í landinu.

Þetta verður þá í fimmta sinn á tveimur áratugum, að lausaskuldum er létt af landbúnaði. Reglan er orðin sú, að á fjögurra ára fresti kemst kinda- og kúabúskapur í þrot, þrátt fyrir árlega styrki, uppbætur og niðurgreiðslur upp á hálfan annan milljarð á núverandi verðlagi.

Kaupfélagsstjórar verða kátir á fjögurra ára fresti. Þá losna þeir við reikningsskuldir bænda. Í staðinn fá kaupfélagsstjórarnir skuldabréf, sem innlánsdeildir kaupfélaganna mega senda Seðlabankanum upp í bindiskyldu eins og um reiðufé væri að ræða.

Með þessum hætti fá sumir ungir menn og bændasynir þá flugu í höfuðið, að unnt sé að hefja búskap með kýr og kindur hér norður við heimskautsbaug. Þeir byrja á lausaskuldum í kaupfélaginu og sökkva síðan í skuldabréfahaug, sem reyrir þá fasta í viðjar búskapar.

Margt fleira er gert hér á landi til að halda bændum við orfið og gabba nýja menn út í fenið. Raunar er 8,4% fjárlaga ríkisins varið til að stuðla að fjárfestingu og framleiðslu í hinum hefðbundna landbúnaði kinda og kúa. Þetta er hálfur annar milljarður í ár.

Sérstök búalög banna, að bændur selji jarðir sínar á markaðsvirði aðilum í þéttbýlinu, svo sem samtökum og fyrirtækjum, er vilja fá sumarbústaðaland. Er þar flaggað þeirri hugsjón, að ríkisbubbar úr Reykjavík skuli ekki eignast landið.

Í staðinn verða bændur að sæta því, að góðbændur í héraði meti verðmæti jarða þeirra á hálfu markaðsvirði eða fjórðungi þess og að góðbændur í héraði hafi forkaupsrétt að jörðunum á því tilbúna verði. Þetta er ein leiðin til að halda bændum við orfið.

Komið hefur verið upp flóknu og hrikalega dýru verðjöfnunarkerfi, svo að mjólk sé fremur framleidd við Lómagnúp en í Mosfellssveit. Þannig er mönnum talin trú um, að byggileg séu héruð, sem eru langt frá markaði þéttbýlisins. Þannig er þeim haldið við orfið.

Hinn hefðbundni landbúnaður kinda og kúa á ekki neitt skylt við atvinnuvegi. Hann er viðamikið kerfi, sem einkum miðar að því að vernda veltu vinnslustöðva og sölufélaga og helzt að auka hana, svo að reisa megi grautarhallir í Borgarnesi og mjólkurhallir í Árbæjarhverfi.

Einnig miðar hinn hefðbundni landbúnaður kinda og kúa að því að efla í Reykjavík gengi manna, sem hafa atvinnu af að stjórna landbúnaði í Búnaðarfélaginu, Stéttarsambandinu, Framleiðsluráðinu og öllum hinum stofnununum, er þeir hafa reist í kringum sig.

Á prenti mælir ekki þessu kerfi bót nokkur maður, sem ekki hefur beinlínis atvinnu af því að mæla því bót. Stundum eru þó dregnir á flot raunverulegir bændur til að vitna um, að þrældómur þeirra og átthagafjötrar séu undirstaða íslenzkrar menningar.

Vinir bænda eru samt þeir, sem vara þá við skuldbreytingum og búalögum og öðrum átthagafjötrum, sem falsvinir bænda hafa komið upp til að halda þeim í þrældómi vinnslustöðva, sölufélaga, kaupfélaga og fínna manna í Reykjavík.

Fyrirhuguð skuldbreyting er nýr hlekkur í þessum átthagafjötrum.

Jónas Kristjánsson.

DV