Tækninám er framtíðin.

Greinar

Skúringar og færibandavinna eru deyjandi starfsgreinar. Nýjasta iðnbyltingin felst í, að vélmenni eru látin taka að sér einföldustu störfin í atvinnulífinu. Lengst er þessi þróun komin í Japan, til dæmis í bílaiðnaðinum þar. Og senn flæðir hún yfir Vesturlönd.

Skúringar og færibandavinna eru láglaunastörf, sem eru lítils metin. Samt þykir hagkvæmara að búa til vélar til að annast þessi störf. Maðurinn er ekki lengur samkeppnishæfur í þessum starfsgreinum, þótt kaupið sé lágt og vinnan sé leiðinleg.

Tvennt er jákvæðast við þessa þróun. Í fyrsta lagi er séð fyrir endann á þeirri martröð iðnbyltingarinnar, að hún tæki mannkynið úr náttúrulegu umhverfi og hlekkjaði það við færibönd í ómannlegum verksmiðjum. Þvert á móti er iðnbyltingin nú að veita mönnum áður óþekkt frelsi.

Hitt jákvæða atriðið er, að framleiðni mun nú aukast hröðum skrefum á nýjan leik. Í evrópskum málmiðnaði er til dæmis gert ráð fyrir, að árið 1995 þurfi helmingi færra starfsfólk til að framleiða það vörumagn, sem framleitt var árið 1980. Þetta er bylting á fimmtán árum.

Ófaglærðir starfskraftar voru árið 1980 átta sinnum fleiri í málmiðnaði en þeir verða árið 1995. Og iðnaðarmenn voru fjórum sinnum fleiri árið 1980 en þeir verða árið 1995. Þær stéttir, sem voru þrír fjórðu hlutar mannaaflans árið 1980, verða aðeins einn fjórði árið 1995.

Stjórnendur munu halda tölu sinni og hækka hlutfall sitt af mannaflanum um helming vegna helmings samdráttar í mannafla fyrirtækja í málmiðnaði. Bezt mun reiða af tæknifræðingum, sem voru 6% starfsmanna í málmiðnaði árið 1980, en verða 40% árið 1995.

Samtals munu stjórnendur og tæknimenn verða 60% mannaflans í málmiðnaði árið 1995. Þetta eru stéttir framtíðarinnar, þær stéttir, sem munu hafa beztu tekjurnar og fjölbreyttustu vinnuna. Þetta eru stéttirnar, sem þjóðfélagið ætti að vera að mennta núna.

Til að mæta þessari framtíð og virkja hana í þágu velmegunar á Íslandi þurfum við að grípa til markvissra ráða í menntakerfinu. Við þurfum öldungadeildir, þar sem ófaglært fólk getur fengið iðnmenntun og iðnaðarmenn fengið tækniskólamenntun. Og jafnframt þurfum við að tryggja, að sem fæst ungmenni lendi í faglausum ógöngum.

Þetta þýðir, að okkur ber að stórefla Tækniskóla Íslands og verkfræðideild Háskóla Íslands. Í Tækniskólann fara nú um 100 manns á ári, en þyrftu að vera nærri 400 á ári. Þessar tölur sýna, hversu vanbúin við erum að mæta framtíðinni og hversu mikið verk er fyrir höndum.

Hér á landi er farið að bera á atvinnuleysi ungs fólks eins og tröllriðið hefur nágrannaþjóðunum á undanförnum árum. Fyrirsjáanlegt er, að vélmennin og önnur hagræðing munu enn stórfækka störfum í atvinnulífinu. En það verða leiðinlegustu og verst launuðu störfin.

Á sama tíma verður vaxandi skortur á tækni- og verkfræðimenntuðu fólki. Á þeim sviðum eru nægir möguleikar handa ungu fólki til starfa að fjölbreyttum, skemmtilegum og vel launuðum viðfangsefnum. Við þurfum fljótt og vel að stórauka kennsluframboð á þessum sviðum.

Ein helzta skylda skólakerfisins er að staðna ekki í gömlum tíma, heldur sjá fyrir byltingarnar, þegar þær eru að renna af stað. Og núna ætti helzta verkefni þess að vera að mennta rúmlega helming unga fólksins í stjórnun, verkfræði og tækni. Þar er framtíðin.

Jónas Kristjánsson.

DV