3089 milljóna sparnaður.

Greinar

Landsfeður okkar virðast vera í mestu vandræðum með að fylla í göt fjárlaga og lánsfjáráætlunar þessa árs. Þeir telja útilokað að spara þær 1845 milljónir, sem þurfi til að ná endum saman. Lausleg yfirferð á fyrirhuguðum útgjöldum bendir þó til, að spara megi 3089 milljónir.

Sú upphæð nýtist að vísu ekki til fulls. Þegar er liðinn nærri fjórðungur ársins, svo að búast má við, að þegar sé búið að greiða sumt, sem betur hefði verið sparað. Við þurfum því að draga frá 772 milljónir og fá út 2317 milljónir til að fjalla raunsætt um málið.

Hins vegar getum við mætt ýmissi röskun og öðrum herkostnaði af þessum niðurskurði með því að gefa frjálsan innflutning landbúnaðarafurða. Það mundi bæta hag neytenda um 500 milljónir að minnsta kosti og sennilega um 1000 milljónir.

En hverjir eru þeir liðir, sem óþarfir eru og samtals nema 3089 milljónum á fjárlögum og lánsfjáráætlun?

280 milljón króna útflutningsuppbætur landhúnaðarafurða hvetja til viðgangs peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis í kinda- og kúabúskap.

258 milljón króna beinir styrkir til kinda- og kúabúskapar hvetja einnig til framhalds á peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis.

945 milljón króna niðurgreiðslur á afurðum kinda og kúa skekkja verðkerfið í landinu. Neytendum má bæta þær upp með frjálsum innflutningi slíkra afurða.

83 milljón króna framlag til Byggðasjóðs hvetur til peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis.

120 milljón króna lántaka Byggðasjóðs hvetur einnig til peningabrennslu og dulbúins atvinnuleysis.

16 milljón króna styrkur við pólitísk sorprit stjórnmálaflokkanna stuðlar að því, að almenningur fái ekki upplýsingar á borð við þessar.

230 milljón króna niðurgreiðsla á raforku stuðlar að því, að fólk búi á óhagkvæmum stöðum á landinu.

61 milljón króna olíustyrkur tefur fyrir nýtingu innlendra orkugjafa.

200 milljón króna lántöku til vegagerðar má fresta um eitt ár af fjárhagsástæðum, enda standa þó eftir 1383 milljónir til vegagerðar á fjárlögum.

200 milljón króna lántaka til Blönduvirkjunar er óþörf, af því að frekja landeigenda hefur gert þá virkjun óhagkvæma og kaupanda vantar að orkunni.

104 milljón króna lántaka til flugstöðvar í Keflavík er óþörf, af því að það er ekki góður staður fyrir gróðurhús og núverandi flugstöð er nógu stór.

92 milljón króna samanlagðir styrkir til Flugleiða eru óþarfir, af því að það þjóðþrifafyrirtæki er komið á réttan kjöl að nýju.

200 milljón krónur getur Seðlabankinn gefið eftir af þeim vöxtum, sem hann tekur af ríkinu, og af öðrum gróða. Um leið getur hann frestað byggingu sinni.

200 milljón krónur má fá með því að beina skattrannsóknum frá smámálum yfir í söluskattinn.

100 milljón króna lántöku til hlutabréfakaupa í vitlausum fyrirtækjum á borð við steinullarverksmiðju má spara, enda er því fé að öllu leyti kastað á glæ.

Samtals eru þetta 3089 milljónir króna í hreinan sparnað án nokkurrar skattlagningar og erlendrar skuldasöfnunar. Þetta er hægt, ef landsfeðurnir hætta að tilbiðja heilögu kýrnar.

Jónas Kristjánsson

DV