Í öllum borgum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku eiga neytendur greiðan aðgang að mörgum tegundum óskemmdra kartaflna árið um kring. Á útimörkuðum þessara borga er algengt að sjá tíu til fimmtán tegundir af húðsléttum og heilbrigðum kartöflum. Hvergi sést skemmd kartafla.
Ísland hefur þá sérstöðu, að hér er hins vegar einkum boðið upp á húðskemmdar kartöflur, sem sumar duga til skepnufóðurs, en aðrar eru hreinlega óætar. Þetta stafar af, að hér ríkir ekki verzlunarfrelsi með kartöflur, heldur einokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins.
Kartöflur og annað grænmeti er skorið upp á öllum tímum árs eftir löndum og breiddargráðum. Nútíma samgöngutækni veldur því, að nýjar og fallegar kartöflur eru jafnan á boðstólum í öllum nágrannalöndum okkar í austri og vestri. Bara ekki hér á landi.
Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefur hins vegar haft lag á að kaupa til manneldis erlendar fóðurkartöflur á sama verði eða hærra en mannamaturinn. Sem dæmi má nefna, að fyrr í þessum mánuði sýndi athugun Neytendasamtakanna, að þriðjungur kartaflna var þriðja flokks.
Nýjustu innkaupin á þremur sendingum af hringrotnum kartöflum frá Finnlandi eru bara yngsti kaflinn í langri harmsögu Grænmetisverzlunar landbúnaðarins. Meðal annars hefur hún flutt inn kartöflur frá sýkingarsvæðum hinnar illræmdu kóloradóbjöllu.
Stundum hefur verið hægt að sýna fram á, að innkaupsverð Grænmetisverzlunar landbúnaðarins eru óeðlilega há. Fyrir fjórum árum keypti hún til dæmis skemmdar kartöflur af Thorsen í Danmörku á 1,20 danskar krónur kílóið við skipshlið, þegar Færeyingar fengu óskemmdar af sömu tegund á 0,85 krónur.
Einnig hefur verið hægt að sýna fram á, að álagning Grænmetisverzlunarinnar er óeðlilega há. Meðan einkafyrirtækin fá 15% álagningu á hliðstæða vöru, er Grænmetisverzluninni ætluð 37% álagning. Dæmi eru svo um, að hún hafi í raun skammtað sér 54% álagningu.
Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefur oft verið staðin að hreinum lygum. Hún hefur gefið upp ýktar tölur um innkaupsverð í útlöndum. Hún hefur logið upp útflutningsgjöldum í útlöndum. Hún hefur haldið því fram, að nýjar kartöflur séu ekki fáanlegar allt árið.
Dæmi um þetta hafa verið rakin hér í blaðinu og fyrirrennurum þess í um það bil áratug. Samt er mjög erfitt að kanna slík mál, því að Grænmetisverzlun landbúnaðarins er lokuð stofnun, sem stendur engum reikningsskap gerða sinna, ekki einu sinni Verðlagsstjóra.
Í 25 ár hefur verzlun þessi starfað á vegum Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Það ráð er þungamiðja valdakerfis landeigendafélags Íslands, það er að segja fyrirtækja og stofnana hins hefðbundna landbúnaðar. Það rekur Grænmetisverzlunina eins og sjálfseignarstofnun.
Þannig hefur höllin Gullauga verið reist fyrir peninga, sem neytendur hafa neyðst til að greiða fyrir of dýrar, of gamlar og of skemmdar kartöflur. Íslendingar hafa neyðst til að borða skepnufóður meðan aðrar þjóðir hafa fengið úrval ódýrra, nýrra og óskemmdra kartaflna.
Ekkert vit er í, að þessi aðstöðumunur verði framlengdur. Neytendur þurfa að skera upp herör gegn einokuninni og kvelja trega stjórnmálaflokka til að létta af martröðinni. Verzlunarfrelsi er forsenda þess, að neytendur öðlist þau mannréttindi að fá ætar kartöflur.
Jónas Kristjánsson.
DV