Eftir sex vikna þref í ríkisstjórninni er fengin léleg niðurstaða í tilraunum hennar til að koma á jafnvægi í ríkisbúskap ársins. Upp í 3.000 milljón króna gat á fjárlögum og lánsfjáráætlun fannst aðeins 300 milljóna sparnaður hjá hinu opinbera. Það er 10% árangur.
Að öðru leyti afgreiðir ríkisstjórnin málið með því að leggja 600 milljón krónur á aðra aðila og taka 2.100 milljón krónur að láni í útlöndum. Þessari dapurlegu niðurstöðu spáði DV raunar fyrir þremur vikum. Þá var ljóst, að ríkisstjórnin hafði misst hæði kjarkinn og flugið.
Ekki er einu sinni svo vel, að ríkisstjórninni sé fyllilega ljóst, hvernig hún spari 300 milljónir. Hún talar um 185 milljón króna lækkun í ráðuneytunum og 100 milljón króna sparnað í heilbrigðiskerfinu. Ekki fylgir sögunni, hvers konar sparnaður þetta sé í raun.
Rétt er að leggja áherzlu á, að 600 milljóna álögur á aðra aðila eru ekki sparnaður, heldur millifærsla í þjóðfélaginu. Þessar millifærslur kunna í ýmsum tilvikum að vera nauðsynlegar og jafnvel beinlínis gagnlegar. En þær fela ekki í sér samdrátt í rekstri ríkisins.
Sem dæmi um þetta má nefna niðurgreiðslurnar, sem sagt er, að eigi að lækka úr 945 milljónum í 760 milljónir eða um 185 milljónir. Þetta er gagnlegur niðurskurður, sem hefði raunar mátt vera margfalt meiri. En hann flokkast undir millifærslur, en ekki beinan sparnað.
Verra er, að ríkisstjórnin lítur á það eins og sjálfsagðan hlut, að þessar 185 milljónir lendi á herðum neytenda, en ekki framleiðenda. Þær lenda ekki á herðum vinnslustöðva, sem lifa í vellystingum praktuglega og fjárfesta grimmt í skjóli einokunar og aðhaldsleysis.
Þar sem unnt væri að fá mun ódýrari landbúnaðarvörur frá útlöndum, verður ekki séð, að neytendum beri að greiða herkostnað af minnkuðum niðurgreiðslum. Það er innflutningsbannið, sem gerir landbúnaðarvörur svo dýrar, að niðurgreiðslur eru notaðar til að láta þær ganga út.
Ef innflutningur landbúnaðarafurða væri frjáls, þyrftu neytendur ekki á neinum niðurgreiðslum að halda og mundu þar á ofan öðlast kjarabót í lækkuðu vöruverði. Niðurgreiðslurnar eru því einkamál ríkisins og hinna vernduðu framleiðenda. Þær á ekki að færa á herðar neytenda.
Sjálfvirknin við að koma niðurgreiðsludæminu á rangar herðar sýnir vel, að Sjálfstæðisflokknum svipar til Alþýðubandalagsins í að vera algerlega blindaður bandingi Framsóknarflokksins í málum hins hefðbundna landbúnaðar, hins íslenzka landseigendafélags.
Þessi blinda hlýðni kemur líka í veg fyrir, að ríkisstjórnin geti aflétt millifærslum á ýmsum öðrum sviðum, er varða landseigendafélagið, svo sem útflutningsuppbótum, innflutningsbanni, beinum styrkjum til eflingar offramleiðslu og ódýrum forgangslánum.
Þetta á verulegan þátt í, að ríkisstjórnin telur sig nauðbeygða til að taka að láni í útlöndum 2.100 milljón krónur af 3.000 milljóna gati fjárlaga og lánsfjáráætlunar. Það er alvarlegasta hliðin á málinu og mun sennilega koma þjóðarskuldum yfir 60% af árlegri þjóðarframleiðslu.
Þótt ríkisstjórnin reyni nú að hagræða spátölum til að svo líti út sem þessi 60% múr hafi ekki verið rofinn með lélegri niðurstöðu í sparnaðaráformum hennar, má öllum öðrum vera ljós ósigur hennar. Eftir góða byrjun í fyrra er farið að síga á ógæfuhliðina. Ríkisstjórninni er þrotinn kraftur.
Jónas Kristjánsson.
DV