Harðlínan bifast ekki.

Greinar

Þess misskilnings hefur gætt undanfarna daga, að nú séu að linast tök landseigendafélags Íslands á stefnu stjórnvalda í málum hins hefðbundna landbúnaðar. Er haft til marks um þetta, að deilt hafi verið um stefnuna á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um síðustu helgi.

Ráðamenn Framsóknarflokksins hafa lengi opinberlega verið þeirrar skoðunar, að framleiða skuli hefðbundnar landbúnaðarafurðir upp í meintar innanlandsþarfir og hafa í góðum árum afgang til útflutnings, svo að ekki komi til skorts á þessum vörum í vondum árum.

Ekki er minnzt á landbúnað í ályktun miðstjórnafundarins. Eftir fundinn lýsti svo Steingrímur Hermannsson formaður yfir, að æskilegt væri, að útflutningur landbúnaðarafurða væri sem minnstur. Þetta er áherzlubreyting í stefnu, en alls engin kúvending.

Ef frá eru taldir nokkrir áhrifalitlir Reykvíkingar, eru deilur Framsóknarflokksins um hinn hefðbundna landbúnað milli harðlínumanna annars vegar og grjótharðlínumanna hins vegar.Harðlínumenn á borð við Steingrím og Jón Helgason landbúnaðarráðherra hafa undirtökin í þeim deilum.

Harðlínumenn vilja í stórum dráttum halda óbreyttri stefnu í málum hins hefðbundna landbúnaðar, þótt gjaldþrot hennar sé sífellt að verða fleirum ljóst. Þeir vilja gefa eftir í smámunum eins og jógúrtmálinu, þegar þrýstingur verður óbærilegur, en sækja fram á öðrum sviðum eins og í eggjamálinu.

Grjótharðlínumennirnir reka hins vegar eins konar lngólfsku, sem er stefna óheftrar sjálfvirkni í offramleiðslu óseljanlegra afurða á þjóðarkostnað. Slíka menn er líka að finna í Sjálfstæðisflokknum og einkum þó í Alþýðubandalaginu, sem oft reynir að grafa undan Framsókn úr þessari átt.

Samanlagt ráða harðlínumenn og grjótharðlínumenn stefnu og gerðum allra þessara stjórnmálaflokka í málum hins hefðbundna landbúnaðar. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur meira að segja gert aðalþingmann stærsta landbúnaðarkjördæmisins, arftaka lngólfs, að flokksformanni.

Þessarar þriggja flokka varðstöðu um landseigendafélag Íslands sér greinileg merki á liðnum vetri. Hinn hefðbundni landbúnaður hefur verið varinn með kjafti og klóm, þrátt fyrir margvíslegar uppljóstranir. Og á sumum sviðum hefur honum tekizt að sækja fram gegn neytendum og þjóð.

Engin von er á, að afnumin verði einokun Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, þrátt fyrir hundraðasta hneykslið, er felst í hringrotna skepnufóðrinu, sem selt er undir heitinu kartöflur. Frumvarp Alþýðuflokksins um það efni hefur ekki einu sinni fengizt rætt.

Engin von er á, að afnumin verði einokun Mjólkursamsölunnar, þótt komið hafi í ljós ofsagróði í skjóli sjálfvirkrar verðlagningar á einokunarvörum, sem meðal annars er notuð til óheiðarlegrar samkeppni á öðrum sviðum. Það er varla, að söluskattur náist af mangó!

Þrátt fyrir virka andstöðu hefur harðlínumönnum tekizt að útvega lán af fé neytenda til eggjadreifingarstöðvar þeirrar, sem er fyrsta skrefið í að breiða einokun hins hefðbundna landbúnaðar yfir egg, kjúklinga og svín. Þar er á ferðinni hið hættulegasta mál.

Þjóðin hefur ekki og er ekki hið minnsta að nálgast afnám martraðar innflutningsbanns á búvöru og ríkisstuðnings við hinn hefðbundna landbúnað. Landseigendafélagið stendur við stjórnvölinn og lætur engan bilbug á sér finna. Þjóðin mun áfram borga og borga og borga.

Jónas Kristjánsson.

DV