Eftirprentanir í stað plasts
Horfið er litaða plastið með límböndum, sem átti að líkja eftir steindum gluggum. Í staðinn eru komnar eftirprentanir frægra málverka í þungum römmum, nokkur framför í átt til smekkvísi. Flest þeirra eru frá tíma blæstíls, en nokkur úr ýmsum áttum. Við sátum undir Varðsveit Cocq og van Ruytenburgh, öðru nafni Næturvörðum Rembrandts – í litum, sem voru töluvert frábrugðnir frummyndinni í Rijksmuseum í Amsterdam.
Að öðru leyti er Smiðjan á Akureyri eins og hún hefur verið, 50 sæta veitingastofa í gömlu húsi, klædd sandblásnum og dökkbrúnum viði. Þar er ennþá gerviarinn með rafljósi og meira að segja er vínið enn geymt við 23 stiga hita í sjálfum borðsalnum.
Í innréttingum er Smiðjan andstæða matsalarins í Hótel KEA, innilokun í stað víðáttu. Þetta er einn af stöðum básatízkunnar. Skilrúmin ná upp að augnhæð og samtal heyrist vel milli bása, svo sem venja er á slíkum stöðum. Og þjónar verða að teygja sig til að bera á borð fyrir gesti.
Lítið er um að vera í Smiðjunni í miðri viku, nema þá á sumrin, þegar slæðingur er af ferðamönnum. Um helgar er meira um að vera. Þá fara Akureyringar út að borða í notalega hlýju umhverfi Smiðjunnar. Þeir hlusta á þægilega kvöldverðartónlist Þorvalds Hallgrímssonar. Þeir njóta skólagenginnar þjónustu fagmanna. Þeir fá mat, sem er næstum því eins góður og á KEA og kostar dálítið meira.
Notalegt er að setjast við skjannahvíta damaskdúkana með ferskum blómaskreytingum og fá ísvatn strax á borðið. Þurrt sérrí var ekki fáanlegt, svo að notast varð við Bristol Dry. Hið eina, sem er úr stíl á borðunum, eru skorin kristalsglös, er víkka út að ofan og gætu dugað undir eftirrétti, til dæmis kraumís. En vínglös eru þau ekki.
Smiðjan er steikhús, sem sérhæfir sig í eldglæringum við borð gesta. Við slíkar aðstæður er kjötið steikt frammi í eldhúsi eins og venjulega. Síðan er farið með það inn í sal, þar sem hellt er á það brandí og kveikt í, svo að loginn stendur stutta stund hátt í loft upp. Gestir eru hættir að fylgjast með þessu sjói, hvað þá að þeir klappi saman lófunum í fögnuði.
Fiskur ekki á boðstólum
Fiskur var næstum alls ekki á boðstólum í Smiðjunni í vor, nema undir heitinu Blandaðir sjávarréttir. Man ég þó eftir að hafa fengið þar ágætan lax að sumarlagi. En þetta fiskleysi er dæmi um, að Akureyringar eru ekki enn komnir á það stig að telja fisk til fíns matar.
Blandaðir sjávarréttir, bornir fram í hörpuskel, með ristuðu brauði, voru aðallega rækjur með smávegis af kola og hörpufiski og miklum lauki. Þetta var bragðsterkur matur og ekki fisklegur. Ekki var hægt að greina sundur bragð einstakra tegunda sjávarrétta í skelinni.
Hvítvínslöguð sjávarréttasúpa var hins vegar góð, þótt einnig hún væri bragðsterk af kryddi. Þetta var vel rjómuð, hressandi súpa, sem hafði að geyma rækjur og hörpufisk. Með henni var borið fram ágætt heilhveitibrauð og smjör, sem enn var í umbúðum Osta- og smjörsölunnar. Slíkt umbúðafargan er talið geta gengið í hótelmorgunverðum, en er óviðkunnanlegt á damaskdúkum veizlusala.
Súpa dagsins var að þessu sinni kjötseyði með skinku og sveppum. Þetta var góð súpa, þótt sveppirnir væru úr dós og skinkan lítt áberandi.
Grillsteiktur humar var óvenju stór og glæsilegur og hefði þess vegna getað orðið hinn bezti matur. En hann var ofgrillaður og borinn fram með brúnuðu smjöri, ekki góðu. Það ætti raunar að banna að ofkrydda og ofelda svona dýrt og viðkvæmt hráefni.
Ljúfustu steikur
Hrásalat með kjötréttunum var sótt upp í salatborð Bautans, sem er í sömu húsasamstæðu. Í annað skiptið var það tilviljanakennd sýnisbók alls þess, sem þar fékkst, en í hitt skiptið var valið úr, svo að það hafði stíl. Þetta var gott salat, borið fram með amerískri sósu, en ekki evrópskri olíusósu.
Meðlæti kjötréttanna var staðlað í bæði skiptin. Í fyrra skiptið var bökuð kartafla, bragðlausar gulrætur soðnar, og bragðlaust rósakál soðið, blómkál og ferskir, hráir sveppir. Í hitt skiptið var bökuð kartafla og belgbaunir úr dós. Sósan var hin hefðbundna béarnaise, sem íslenzkir kokkar telja eina koma til greina með nautasteik.
Smiðjubautinn á seðli dagsins og turnbautinn á fastaseðlinum þurftu að þola eld-sjóið, en lambalundirnar sluppu hins vegar. Allt var þetta hrásteikt, meyrt og ljúft á bragðið, svo sem vera ber á stað, er sérhæfir sig í steik.
Annað sérkenni Smiðjunnar er að bjóða upp á fjölbreytta og óvenjulega eftirrétti. Hæst ber þar glóðaða banana með Kahlúa kaffilíkjör og rjóma, hinn ljúfasta eftirrétt. Ísfylltur súkkulaðibolli reyndist einnig vera góður. Með kaffinu voru bornir fram ágætir konfektmolar.
Vínlisti Smiðjunnar er fátæklegur. Þar má þó finna meðal hvítvína Bernkasteler Schlossberg, kallað Badstube á vínkorti, og Chablis, og meðal rauðvína Chianti Antinori og Chateauneuf-du-Pape.
Fastaseðill Smiðjunnar rúmar fjórar súpur, sex forrétti, þrjá sjávarrétti, sjö kjötrétti og fimm eftirrétti. Miðjuverð súpa er 92 krónur, forrétta 190 krónur, sjávarrétta 340 krónur, kjötrétta 430 krónur og eftirrétta 120 krónur. Þríréttuð veizla af fastaseðli með hálfri flösku af víni á mann og kaffi ætti að kosta um 811 krónur á mann.
Seðill dagsins bjó yfir súpu, tveimur-þremur aðalréttum og eftirrétti. Þriggja rétta veizlan ætti að kosta 910 krónur á kvöldin og ekki nema 488 krónur í hádeginu. Súpa og aðalréttur í hádeginu kosta 323 krónur að meðaltali.
Smiðjan er ágætur staður fyrir þá, sem dálæti hafa á góðum steikum og hafa gaman af að horfa í eld, þótt ekki sé nema andartak.
Jónas Kristjánsson
DV