Seintekinn þjóðargróði.

Greinar

Nýlega kom fram á aðalfundi eins bankans, að eftirspurn eftir lánsfé sé þrefalt meiri en framboðið. Slíkt er ástandið enn, þótt vextir séu loksins orðnir jákvæðir og þótt bönkunum hafi verið heimilað að hefja samkeppni um að laða að sér sparifjáreigendur.

Verðbólgan hefur komið sér þægilega fyrir í 10% hægagangi og er ekki líkleg til að lækka frekar í bráð. Miðað við það er eðlilegt að túlka skakkan lánamarkað þannig, að vextir þurfi að hækka á nýjan leik. Þeir þurfi að verða jákvæðari en þeir hafa verið.

Steingrímur Hermannsson hefur að vísu sagt, að vaxtahækkun komi ekki til greina. Þar með er hann raunar að segja, að hann treysti sér ekki til að nálgast jafnvægi á lánamarkaði meira en orðið er. Eftirspurnin muni áfram verða þrefalt meiri en framboðið.

Það hefur sínar góðu hliðar, að Steingrími og félögum hans í ríkisstjórninni hefur tekizt að gera Ísland að láglaunasvæði. Fyrirtækjum er farið að vegna betur og kjarkur til athafna hefur aukizt. Þetta vekur vonir um efldan þjóðarhag og betri lífskjör í framtíðinni.

Aukinn máttur fyrirtækja leiðir til aukinnar sóknar þeirra í lánsfé til uppbyggingar. Ráðamenn þeirra telja fyrirhugaðar fjárfestingar svo arðbærar, að þær muni standa undir hinum jákvæðu vöxtum, sem nú ríkja. sumar gætu vafalaust staðið undir hærri vöxtum.

Hið fullkomna jafnvægi fælist í, að vextir yrðu svo háir, að framboð og eftirspurn væru jöfn. Þá mætti ætla, að einungis væri ráðizt í arðbærustu fjárfestinguna. Þannig mundi takmarkað sparifé landsmanna nýtast hraðast, endurnýjast örast til nýrrar fjárfestingar.

Þar sem ríkisstjórnin hefur ekki þessa hugsjón að leiðarljósi, reynir hún í staðinn að skammta lánsféð. Hún reynir að velja úr þennan eina af hverjum þremur, sem fær peningana. Þetta hafa ríkisstjórnir alltaf gert og sjaldnast út frá neinum arðsemissjónarmiðum.

Ríkisstjórnin hefur beðið Alþingi um heimild til að auka svokallaða bindiskyldu bankanna í Seðlabankanum um 10%.. Með því er ætlunin að taka lánsfé af hálfopnum markaði bankakerfisins og færa inn í sjálfvirka kerfið, sem forgangsgreinar njóta í Seðlabankanum.

Peningar eru raunar aldrei bundnir í þeim banka. Þeir fara út jafnharðan í formi sjálfvirkra lána á betri kjörum en tíðkast á almennum markaði. Þannig er tryggt, að gæludýrin fái sitt, meðan arðbær verkefni slást um niðurskorið fjármagn bankakerfisins.

Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á jafnvægi á lánamarkaði er ein af orsökum þess, að enn er krafizt 75% útborgunar í fasteignaviðskiptum, þótt verðbólgan hafi snarlækkað á einu ári. Þessi útborgun sýnir, að eftirspurn eftir steypu er meiri en framboðið.

Dæmin sýna, að hér ríkir ekki kreppa, heldur þensla. Hún gefur vonir um fulla atvinnu í náinni framtíð og bætt lífskjör í fjarlægari framtíð. Þetta er góða hliðin á annars þungbærri láglaunastefnu. En svo virðist, að ríkisstjórnin ætli að láta við þá stefnu eina sitja.

Núverandi svigrúm ætti hins vegar að nýta til að koma á jafnvægi og jafnrétti á lánamarkaði, svo að peningar renti sig sem örast og þjóðin verði aftur rík. Meðan framboð á lánsfé er aðeins einn þriðji af eftirspurn verður seintekinn þjóðargróðinn af þessari ríkisstjórn.

Jónas Kristjánsson.

DV