Ýmislegt bendir til, að ríkisstjórninni muni reynast erfitt að halda verðbólgunni niðri, þegar líður á seinni hluta þessa árs. Eftir það afreksverk að koma henni niður í 10% á skömmum inna, skortir hana úrræði til að verja árangurinn og nýta hann til frekari framfara.
Ríkisstjórninni hefur ekki tekizt að hindra, að samdráttur þjóðartekna leiddi til aukinnar hlutdeildar ríkisins í þjóðarbúskapnum. Henni hefur ekki tekizt að draga úr kostnaði við ríkisrekstur til samræmis við aðra aðila þjóðfélagsins, til dæmis heimilin í landinu.
Ríkisstjórnin hafði hálft ár til að koma fram fjárlögum og þrjá mánuði til viðbótar til að afgreiða lánsfjáráætlun og staga í fjárlagagatið. Niðurstaðan er, að fátt eitt hefur verið sparað, en hins vegar efnt til umtalsverðrar söfnunar skulda í útlöndum.
Umfangsmikill rekstur ríkissjóðs og sú nýbreytni að fjármagna daglegan rekstur hans með erlendu lánsfé eru til þess fallin að auka peningaþensluna án nokkurrar hliðstæðrar eflingar atvinnulífsins. Með þessu er verið að efna í nýja verðbólgu, sem mun leita framrásar.
Ríkissjóður stendur í harðri samkeppni við atvinnulífið um takmarkað sparifé landsmanna. Þegar tregða komst í sölu ríkisskuldabréfa, hóf ríkið öra útgáfu ríkisvíxla. Þetta hefur stuðlað að því, að framboð peninga í bönkunum er ekki neina þriðjungur af eftirspurn.
Slíkt misvægi er auðvitað ávísun á verðbólgu, þótt hún blundi enn undir niðri og hafi ekki komið upp á yfirborðið. Og það er ekki hin jákvæða verðbólga, sem byggist á miklum sóknarþunga þjóðarinnar í arðbærri fjárfestingu, heldur verðbólga fjármagnsskömmtunar.
Ríkisstjórnin hefur ekkert breytt kerfinu, sem sér um, að verulegur hluti fjármagns landsmanna renni framhjá brautum arðseminnar inn á brautir ríkisrekstrar og sjálfvirkrar fyrirgreiðslu við hefðbundna og lítt arðbæra starfsemi, sem löngum hefur notið pólitískrar náðar.
Ríkisstjórnin hefur náð verðbólgunni niður með því að gera landið að láglaunasvæði, en hún hefur ekki notað lagið til að gera neinn þann uppskurð í peninga- og atvinnumálum, sem veki vonir, að aukin arðsemi fjármagns og vinnu muni endurveita þjóðinni fyrri lífskjör.
Fréttirnar af Grænmetisverzlun landbúnaðarins og Mjólkursamsölunni eru tvö lítil, ný dæmi um, að hinn hefðbundni landbúnaður er í heild sinni gjaldþrota. Þegar slíkt krabbamein er ekki einu sinni skorið upp, er ljóst, að við munum áfram búa við kröpp kjör.
Margvíslegar upplýsingar um vafasama fjárfestingu hins opinbera, til dæmis í verksmiðjudraumórum og heilsugæzlustöðvum, hafa ekki leitt til neinnar viðleitni til að nýta betur fjármagnið í landinu. Þetta eru bara örfá dæmi um, að ríkisstjórnin er í sjálfheldu.
Í haust mun hún standa berskjölduð gagnvart launþegasamtökum, sem hafa lausa samninga og munu spyrja, hvernig ríkisstjórnin hafi notað svigrúmið, sem hún fékk við hófsemdarkjarasamninga liðins vetrar. Og ríkisstjórnin mun ekki geta veitt nein marktæk svör.
Þannig rennur tíminn frá ríkisstjórninni. Framkoma hennar gagnvart launþegum mun ýta undir óraunhæfa kjarasamninga síðar á þessu ári. Þeir munu svo aftur blása eldi í glæður verðbólgunnar, sem ríkisstjórnin hefur að undanförnu verið að safna í af hreinu ráðleysi.
Jónas Kristjánsson.
DV