Grænmetisverzlun landhúnaðarins er ekki eina dæmið um ill áhrif einokunar á viðskiptahætti, þótt hún sé vafalaust hið versta þeirra. Einokun er í sjálfu sér þess eðlis, að ráðamenn hennar geta ekki staðið undir henni, jafnvel þótt þeir haldi sig gera sitt bezta.
Osta- og smjörsalan er stundum tekin sem dæmi um einokun, sem hafi lánast sæmilega og gæti ef til vill verið grænmetisverzluninni til fyrirmyndar. Þessa misskilnings gætir einkum hjá fólki, sem hefur lítinn áhuga á fjölbreyttri notkun osta og veit ekki, hvernig góðir ostar eiga að vera.
Hópur fólks hugðist nýlega halda ostaveizlu og keypti ostana til öryggis í sjálfri ostabúð einokunarinnar. Eftir eina nótt í kæli hafði Port Salut þrútnað og gaf frá sér ógeðslega fýlu. Það tókst að fá honum skipt í Osta- og smjörsölunni í tæka tíð og fá nothæfan í staðinn.
Í ostaveizlunni kom svo í ljós, að Dalayrja var mygluð út í rauða og svarta liti. Ennfremur var Búri tvílitur, gulur að hálfu og bleikur að hálfu. Þar með voru þrír af upprunalegu tíu ostunum ekki neyzluhæfir. 30% afföll hljóta aðteljast 30% of mikil afföll.
Aðeins einokunarstofnun getur leyft sér frammistöðu á borð við þessa. Aðeins slík stofnun getur haft á boðstólum osta, sem heita frægum nöfnum, en eru ólíkir hinum upprunalegu ostum og þar að auki mismunandi frá lögun til lögunar. Sú er einmitt reynslan hér á landi.
Osta- og smjörsalan hefur í mörgum tilvikum í boði ostategundir, sem framleiðendur hafa ekki náð tökum á. Stundum heppnast framleiðslan og stundum ekki. Gráðosturinn sveiflast til dæmis frá því að vera mjög góður yfir í að vera óætur frá hendi framleiðandans.
Mjólkursamsalan í Reykjavík er dæmi um einokun með orðspori, sem er einhvers staðar á milli Grænmetisverzlunar landbúnaðarins og Osta- og smjörsölunnar. Hún er hins vegar frægust fyrir verðlagningu, sem senn mun sjást í smíði stærstu mjólkurhallar Vesturlanda.
Mjólkursamsölunni hefur aldrei tekizt að búa til súrmjólk, er stenzt samanburð við þá, sem gerð er á Akureyri og Húsavík. Engin nothæf tilraun virðist hafa verið gerð til að brúa þetta sérkennilega bil, enda má ekki selja norðansúrmjólk á einokunarsvæði Mjólkursamsölunnar.
Síðustu árin hefur Mjólkursamsalan margoft verið staðin að því að dagstimpla mjólk lengra fram í tímann en þá þrjá daga, sem leyfðir eru. Einu sinni tókst með myndatöku að sýna fram á, að mjólk var stimpluð átta daga fram í tímann. Fimm dagar eru algeng stærðargráða í svindlinu.
Þótt forhitun mjólkur hafi verið bönnuð, hefur henni miskunnarlaust verið beitt til að hindra, að mjólkin súrni á hinum langa geymslutíma. Við það drepast mjólkursýrugerlarnir, og í staðinn dafna rotnunargerlarnir. Af þeim stafar hið fúla bragð, sem oft er að mjólkinni.
Landseigendafélag Íslands, sem stendur að þessum þremur einokunarstofnunum, er nú að koma á fót hinni fjórðu. Það er eggjadreifingarstöðin, sem mikill styr hefur staðið um. Hún verður senn sett upp í Kópavogi og þá mega neytendur búast við fúlum og skemmdum eggjum í fyrsta sinn.
Allar þessar stofnanir dafna, af því að neytendur hafa ekki dug og samtakamátt til að setja þær í viðskiptabann. Það er ekki fyrr en vitleysan gengur út í öfgar Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, að neytendum tekst að fá einokunina mildaða um stundarsakir. Um stundarsakir.
Jónas Kristjánsson.
DV