Japanir verða manna elztir eins og Íslendingar. Þar eins og hér er ungbarnadauði ekki nema sjö af þúsundi fæðinga. Og þar eins og hér eru ævilíkur við fæðingu 77 ár. Engar þjóðir standa framar Íslendingum og Japönum á þessum mælikvörðum heilsugæzlu og heilsufars.
Til samanburðar má nefna, að ungbarnadauði í Vestur-Þýzkalandi er þrettán af þúsundi og tólf af þúsundi í Bandaríkjunum. Og ævilíkur Vestur-Þjóðverja við fæðingu eru 73 ár og 75 ár hjá Bandaríkjamönnum. Þessar tvær ríku þjóðir hafa lakari heilsu en við og Japanir.
Það skilur hins vegar á milli Íslendinga og Japana, að við höfum tvöfalt meiri kostnað af okkar heilbrigðisþjónustu. Í ár kostar íslenzk heilbrigðisþjónusta 1000 dollara á mann, en japönsk ekki nema 500 dollara. Mismunurinn felur í sér verulega fjárhæð í heild.
Gera má ráð fyrir, að kostnaður ríkis, sveitarfélaga, sjúkrasamlaga og einstaklinga af heilbrigðisþjónustu verði um 6,6 milljarðar króna á Íslandi á þessu ári. Þjóðhagsstofnun áætlar, að kostnaður við heilbrigðisþjónustu sé um þessar mundir 9,8% af þjóðarútgjöldum.
Ef við hefðum japanska heilbrigðiskerfið, væri kostnaður okkar í ár 3,3 milljarðar í stað 6,6 milljarða. Þessi munur er svo hrikalegur, að margumtalað fjárlagagat bliknar í samanburði við hann. Hann bendir til, að við gætum lært sitthvað af Japönum á þessu sviði.
Með þessum samanburði er ekki verið að segja, að íslenzka heilbrigðiskerfið sé ómögulegt. Sem annað dæmi má nefna, að það nær fyrir 1000 dollara á mann mun betri árangri en bandaríska kerfið nær fyrir 1500 dollara á mann á ári. Við erum ekki dýrastir allra.
En þessar tölur sýna, að við eigum frekar að læra af Japönum en Bandaríkjamönnum. Vestan hafs hefur kerfi sjúkrasamlaga leitt til óhóflegrar áherzlu á sjúkrahús og á dýrustu tegundir rannsókna og lækninga. Í Japan er hins vegar mest áherzla lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir.
Yfirmaður við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina sagði nýlega, að við hefðum byggt sjúkrarými 10-15 ár fram í tímann. Þar að auki höfum við farið glannalega í smíði heilsugæzlustöðva, sem kostar of fjár að reka. Okkur dugði ekki minna en ein á Hvolsvelli og önnur á Hellu.
Sem dæmi um kostnað við sjúkrahús má nefna, að í Bretlandi þjóna þau 2% sjúklinga og nota til þess 67% af fé heilbrigðismála. Markvissar aðgerðir í heilsuvernd stuðla að því, að færri tilfelli en áður verði svo alvarleg, að leggja þurfi fólk á spítala.
Japanir leggja mikla áherzlu á skoðanir á heilbrigðu fólki í svipuðum dúr og ítarlegri en hér eru framkvæmdar af þjóðþrifastofnunum á borð við Hjartavernd og Krabbameinsfélagið. Þeir geta því varað fólk við í tæka tíð og fengið það til að breyta lífsháttum sínum til batnaðar.
Ólafur Ólafsson landlæknir hefur oft vakið athygli á, að heilsuvernd sé sparnaður og að vænlegra sé að fjárfesta í heilsuvernd en sjúkdómum. Þá hefur verið talað um, að verðreikna þurfi þjónustu sjúkrahúsa, svo að læknar og sjúklingar viti, hvað hlutirnir kosta.
Þegar heilbrigðisþjónusta landsins er komin upp undir 10% af þjóðarútgjöldum, er ljóst, að lengra verður ekki komizt. Eftir það verður bætt heilsugæzla þjóðarinnar að koma fram í tiltölulega ódýrum fyrirbyggjandi aðgerðum, þar sem ein króna í dag sparar þúsund á morgun.
Jónas Kristjánsson
DV