Veitingahöllin

Veitingar

Kalt og norrænt

Innréttingarnar eru annað hið eftirminnilegasta frá Veitingahöllinni í Húsi verzlunarinnar í nýja miðbænum. Þær mundu jafnvel sóma sér vel í kirkju eða stjórnarfundasal framsækins banka, ákaflega smekklegar, kaldar, yfirvegaðar og norrænar. Gestir setja ósjálfrátt upp spariandlitið, þegar þeir koma inn í þennan helgidóm.

Hitt eftirminnilega atriðið er, að miðjuverð á súpu, einum af tíu réttum dagsins, hrásalati að eigin vali, þremur eftirréttum og kaffi er ekki nema 215 krónur. Og 160 krónur, ef aðalréttinum er sleppt. Þetta er hvort tveggja einstaklega lágt verð á fjölbreyttri máltíð, allt að því ókeypis!

Í þessari grein er eingöngu fjallað um fremri veitingasalinn, þar sem menn panta við diskinn og borga við kassann, en ekki hinn innri, þar sem veitt er full þjónusta, þar sem matseðillinn er allt annar og dýrari og þar sem matreiðslan er betri, þótt hún komi úr sama eldhúsi. Ef til vill verður síðar tækifæri til að fjalla um innri salinn.

Niður úr smáreituðu lofti hanga hinar fegurstu ljósakúlur, glærar og misstórar. Á veggjum er ljós viður í láréttum línum, snyrtilega rofinn af speglaskúlptúr. Stórir gluggar magna birtu og kulda. Teppi er undir borðum, en flísar á gönguleiðum við disk, kassa og salatbar.

Skandinavíski stíllinn heldur áfram við borðin, sem eru hringlaga, úr ljósum við og plastplötu. Í sama stíl eru stólarnir, þar sem bak og armar renna saman í hálfhring. Þótt allt sé þetta fullkomlega stílhreint, er það ekki notalegra en svo, að gestir eru tiltölulega fljótir að ljúka sér af.

Salat og eftirréttir á barnum

Þessi fremri salur Veitingahallarinnar býður upp á fyrirkomulag í stíl Pottsins og pönnunnar og hins akureyrskra Bauta. Aðgangur að salatborði fylgir öllum aðalréttum. Boðið er sérstaklega upp á aðgang að súpu og salatborði. Hinu síðarnefnda er í öllum tilvikum ætlað að vera þungamiðja máltíðarinnar.

Salatbarinn er ekki eins myndarlegur og fjölbreyttur og á Pottinum og pönnunni, en er þó snyrtilegur og laus við þreytubrag. Þar er ekki aðeins að finna hliðarrétti, heldur einnig eftirrétti. Það þýðir, að seðill dagsins býður í raun upp á þríréttaða máltíð auk hrásalats og kaffis.

Gestir fremri salar Veitingahallarinnar þurfa ekki að eyða miklum tíma í nokkru dýrari fastaseðil, því að á hinum ódýra seðli dagsins má velja milli tíu aðalrétta fyrir utan súpu dagsins. Þar af eru fjórir fiskréttir og sex kjötréttir, svo að úr nógu er að velja.

Í prófuninni reyndist súpa dagsins vera frambærileg sveppasúpa. Með henni mátti fá sér af salatbarnum ýmiss konar girnileg brauð frá Sveini bakara, allt í hinum heilsusamlega stíl, sem blessunarlega er kominn í tízku hér á landi.

Á salatbarnum mátti meðal annars sjá sveppi, gúrku, tómata, græna papriku, kínakál, tvenns konar áleggspylsur saxaðar, eggjasalat, rúsínusalat og tvenns konar sósur bandarískar. Rúsínusalatið mátti nota fyrir eftirrétt, sem og ávaxtasalat og hlaup.

Ekki í stíl Múlakaffis

Fiskréttir dagseðils Veitingahallarinnar fremri reyndust sæmilegir, en of saltir. Karfaflök með eplum, ananas og karrí voru að vísu án ananas, en með ágætum, hvítum kartöflum, sem tæplega voru úr Grænmetisverzluninni. Steikt steinbítsflök með kryddsmjöri voru sambærileg við karfaflökin. Hvort tveggja var lítillega ofeldað.

Kínverskar vorrúllur dagseðilsins með nautakjötsfyllingu reyndust vera í tæpu meðallagi góðar. Með þeim fylgdu hrísgrjón að venju, svo og sætsúr sósa mild.

Nautakjöt að enskum hætti af fastaseðli var bragðlaust með öllu, borið fram með lauk og smjöri, miðlungi steikt. Laukurinn var ágætur á bragðið.

Glóðarsteiktur kjúklingur af fastaseðli var mildilega eldaður og sómasamlega meyr. Hann var borinn fram með þjóðarréttunum kokkteilsósu og frönskum kartöflum.

Og ég, sem hélt, að þeir Múlakaffismenn, sem eiga staðinn, væru meira fyrir heimilismat eins og tíðkaðist í gamla daga fyrir tíð MacDonalds. Ég leitaði á matseðlinum að saltkjöti og baunum og fiskibollum í karrí, en fann hvergi, ekki frekar en kjötsúpu eða sagósúpu.

Í eldamennsku fremri salar Veitingahallarinnar virðist mér ríkja eins konar málamiðlun milli salats og heilsubrauðs annars vegar og franskra kartaflna og kokkteilsósu hins vegar. Hvorugt er líkt heimilismatreiðslunni handa langflutningabílstjórum í Múlakaffi.

160 og 215 króna veizlur

Miðjuverð á súpu, hrásalati, aðalrétti, eftirrétti af salatbar og ókeypis kaffi er 215 krónur á seðli dagsins og 328 krónur á fastaseðli. Án aðalréttar kostar þetta 160 krónur. Með eftirrétti af fastaseðli og hálfri flösku af víni á mann ætti fyrsta upphæðin að fara í 415 krónur og miðupphæðin í 528 krónur.

215 króna verð fyrir fjölbreytta máltíð er auðvitað afar hagkvæmt og stenzt fyllilega samkeppni við hvaða annan stað sem er. Gæðin eru hins vegar til betri annars staðar, þótt þau séu raunar frambærileg hér. Þjónustan er líka frambærileg, svo langt sem hún nær. Og útlit staðarins er svo út af fyrir sig skoðunar virði.

Jónas Kristjánsson

DV