Kvosin

Veitingar

Málskrúð og lygi

Matseðill Kvosarinnar gæti verið þýðing á seðli, sem ég get ímyndað mér að hafi verið á miðevrópsku hóruhúsi á þriðja tug aldarinnar. Hann byrjar á “ógleymanlegri uxahalasúpu með snæhettu”. Kannski er vertinn með þessu að gefa í skyn, að hinir réttirnir séu síður en svo ógleymanlegir. Enda eru þeir raunar bezt gleymdir.

Blandaðir sjávarréttir heita “sjávarkonfekt” á máli seðilsins. Má ljóst vera, að höfundur þessa orðalags hefur litla tilfinningu fyrir því, að orðið konfekt rifjar upp minningar um eitthvað sætt. Í tilraunum til frumleika verður jafnan að gæta þess, að einhver hugsun sé að baki samlíkinga.

Ég þorði ekki að kynnast “leyndarmálinu um alikálfamauk” eða “töfrafyllingunni”, sem átti að fylgja stórlúðunni. Hins vegar prófaði ég madeira-sósuna með lambalundum. Hún reyndist ekki vera nein madeira-sósa, heldur ósköp venjuleg béarnaise-sósa. Matseðillinn er semsagt rangur, þá sjaldan hann gefur upplýsingar um matreiðslu.

Í heild má segja um matseðil Kvosarinnar, að hann endurspeglar fúskið í eldhúsinu. Þaðan komu réttir, sem sumir voru ómerkilegir og aðrir beinlínis vondir. Hið eina jákvæða, sem hægt er að segja um matreiðsluna, er, að hún er aðferð til að láta peninga sirkúlera í þjóðfélaginu. Og peningar sirkúlera svo sannarlega í Kvosinni, dýrasta veitingahúsi landsins og þótt víðar væri leitað.

Smjörið sparað

“Fiskisúpa með sjávarkonfekti og koníakslögg” reyndist vera eins konar tómatsósa með ýmsum sjávardýrum, sem ekkert bragð fannst að, af því að sósubragðið yfirgnæfði. Með súpunni var borið fram hversdagslegt franskbrauð án smjörs.

“Gufusoðin smálúðuflök með grænmetisþeytu” var algerlega bragðlaus smálúða, vafin um frísklegan spergil. Með henni fylgdi ágætis grænmeti hrátt og niðursoðið mangó, svo og bökuð kartafla. Ekki fann ég neytt, sem gæti átt við heitið grænmetisþeyta.

“Glóðaðir humarhalar aflakonunnar”, eru sennilega hvatning frá Hinni Hagsýnu Húsmóður, því að þeir voru helmingi ódýrari en “Glóðaðir humarhalar aflakóngsins”. Samt voru þeir ekki peninganna virði, að vísu hæfilega stórir, en fremur þurrir.

Með hölunum var ekki borið fram bráðið smjör, heldur humarsósa. Auðvitað er ágætt, þegar einhver þorir að víkja frá hefðinni. Verri tilbreytni var, að ekkert smjör var heldur með ristuðu franskbrauðsneiðunum, sem fylgdu humrinum. Sennilega er kokkurinn frekar nízkur.

“Graflax í melónukæfu” var ekki í neinni melónukæfu, heldur borinn fram með litlum melónubitum. Með honum fylgdu fjórar ristaðar franskbrauðsneiðar og smjör, sem með ýtrustu sparsemi mátti láta þekja eina sneið. Af fiskinum var gífurlegt saltbragð með ívafi af piparbragði. Verri graflax hef ég aldrei fengið á ævinni.

Misþyrmt með beikoni

“Innbakaðar lambalundir Madeira” voru með béarnaise-sósu, svo sem áður er getið. Þetta var sæmilegasta kjöt, ekki ofeldað, þótt innbakað væri. Hveitihjúpurinn var þykkur og vondur, en auðvelt var að skafa hann frá.

Með lundunum fylgdi sama grænmetið og yfirleitt var með aðalréttum Kvosarinnar, fylltur tómatur, flatar belgbaunir og kartöflustappa í bökuðu kartöfluhýði. Ennfremur ágætis hrásalat með þúsund eyja sósu.

“Pönnusteikt alikálfalifur með fleski og kapers” var sæmilega rauð og meyr, en hins vegar bragðlaus, af því að svínafitan yfirgnæfði algerlega. Slíkar misþyrmingar eru svo algengar hér á landi, að ég óttast, að í kokkaskólanum sé kennt að eyðileggja bragðmildan mat með beikoni.

Hrásteikta piparsteikin var í raun miðlungi steikt, enda hráefnið ekki of gott. Hún var ákaflega pipruð og dálítið seig. Miðlungi steiktur turnbautinn var hins vegar sæmilega meyr, en bragðdaufur.

Það frambærilega í matreiðslu Kvosarinnar þetta kvöldið voru eftirréttirnir tveir, heimalagaður ís með jarðarberjasósu, melónu og þeyttum rjóma, svo og heitt kókosmauk með kiwi og þeyttum rjóma.

Vínlistinn í Kvosinni er nauðaómerkilegur. Sérstaklega erfitt er þar að finna drykkjarhæf hvítvín. Ekkert þurrt sérrí var til á staðnum og ekkert gott portvín gamalt. Daiquiri hanastél reyndist ekki heimalagað, heldur úr blöndu, sem seld er á flöskum í matvörubúðum, enda var bragðið eftir því.

Miðjuverð tveggja súpa er 160 krónur, fjögurra forrétta 325 krónur, þriggja fiskrétta 320 krónur og tveggja eftirrétta 140 krónur. Kaffi eftir matinn er á heilar 50 krónur. Enginn seðill dagsins er í Kvosinni.

Þríréttuð máltíð með kaffi og hálfri flösku af víni á mann ætti að kosta að meðaltali 1023 krónur á mann. Er það hæsta verð, sem ég hef kynnzt á íslenzku veitingahúsi. Það væri of hátt, þótt kokkinum væri ekki illa við gestina.

Fallegur staður

Þjónustunni á staðnum stjórnar duglegur yfirþjónn, sem gerir sitt bezta, en ræður þó ekki við fullan sal. Það virðist sparað í mannahaldi eins og í smjöri.

Kvosin er fallegur staður, sem tekur um 90 manns í sæti. Bogasúlnarið er framan við hljómlistarpall og bar, sem rúmar fjölda manns í hægindastólum. Á miðju gólfi eru tvær súlur, klæddar speglum. Veggir og loft eru hvítmáluð. Í loftum eru gamaldags ljósakrónur úr glerbútum. Á einum vegg eru gamlar ljósmyndir, á öðrum málverk og fín teppi á hinum þriðja. Lýsing er notuð til að framkalla rómantískt andrúmsloft. Lágt er til lofts og hljómburður slæmur frá fiðlu og píanói.

Afar skrautlegt teppi er á gólfi. Stólar eru bakháir og flauelsklæddir. Borðin eru úr póleruðu mahóní og bera fín glös og kertalugtir. Andrúmsloftið er þægilegt, enda eru kokkahúfurnar ofan við þessa grein fremur fyrir innréttingu en matreiðslu. Kvosin er fallegur staður utan um ekki neitt. Nema óhagstæðan viðskiptajöfnuð gesta.

(Ath. að staðurinn er bara opinn á kvöldin, fimmtudaga til sunnudaga og er frekar dimmur)

P.S. Mér er sagt, að eigendaskipti hafi orðið á Kvosinni 1. júní, það er eftir að þessi grein var rituð og raunar komin í prentun. Ýmislegt í greininni kann því fljótt að verða úrelt.

Jónas Kristjánsson

DV