Vinnufriður í haust

Greinar

Sé grannt skoðað, er ekki víst, að til átaka þurfi að koma á vinnumarkaði í haust vegna fyrirhugaðra uppsagna á kjarasamningum 1. september. Í rauninni hefur sjaldan verið eins lítið bil milli launafólks og atvinnurekenda og í þeim tölum, sem flaggað er að þessu sinni.

Ýmis samtök launafólks hafa lýst yfir, að áður umsamin 3% launahækkun 1. september muni ekki nægja til að halda þeim kaupmætti, sem var á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. En það var einmitt andi febrúarsamninga þessa árs, að þeir ættu að varðveita þann kaupmátt.

Framkvæmdastjórn Verkamannasambandsins hefur nefnt, að 5-6% hækkun þurfi í stað 3% til að varðveita kaupmáttinn. Formannafundur Verkamannasambandsins telur hins vegar, að meira þurfi, eða 8%. Varaforseti Alþýðusambandsins hefur farið bil beggja og nefnt töluna 7%.

Ekki eru allir sammála þessum tölum annars hagsmunaaðilans. Í Þjóðhagsstofnun er því haldið fram, að kaupmáttur sé nú hinn sami og var á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. Ennfremur, að ekkert bendi til, að kaupmátturinn muni rýrna á næstunni, svo mælanlegt sé.

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu, að málsaðilar kanni sameiginlega, hvort óbreyttum kaupmætti sé haldið í haust með áður umsaminni 3% hækkun eða með 7% hækkun eða einhverri tölu þar á milli. Þegar svo lítið ber í milli í upphafi, ætti að vera unnt að finna lausnina.

Samtök launafólks hafa einnig sett fram kröfur um, að lögbundin lágmarkslaun í þjóðfélaginu verði hækkuð úr 13.000 krónum í 14.000 krónur. Auðvelt er að rökstyðja þessa kröfu með því, að ekki sé hægt að ætlast til, að fólk lifi af 13.000 króna mánaðarlaunum.

Á móti þessum kröfum samtaka launafólks hafa atvinnurekendur teflt fram kostnaði af launaskriði, sem orðið hafi í vetur. Launaskriðið felst í, að mikilvægir starfsmenn í fyrirtækjum fá auknar yfirborganir umfram kjarasamninga, þegar almenn kjaraskerðing verður í þjóðfélaginu.

Til dæmis hafa verið sýndar tölur, sem benda til, að stjórnendum fyrirtækja hafi ekki aðeins verið bætt upp kjararýrnun vetrarins, heldur mikill hluti og jafnvel öll kjararýrnun undanfarinna ára. Hið sama mun vafalaust gilda um aðra starfsmenn, sem fyrirtækin vilja ekki missa.

Gallinn við þessa röksemdafærslu er, að það er fyrirtækjunum í sjálfsvald sett, hvort þau telja sig hafa efni á auknum yfirgreiðslum af þessu tagi. Markmið kjarasamninga er hins vegar fremur fólgið í að vernda hagsmuni hinna, sem mega sín miður en þessir lykilmenn.

Mjög erfitt er að verja, að samdráttur þjóðartekna eigi óbeint að leiða til aukins lífskjaramunar í þjóðfélaginu, af því að þeir haldi sínu, er betur mega sín. Þótt Þjóðhagsstofnun meti launaskrið ársins á 4% kjarabót, verður lítt hægt að halda slíku fram í samningum.

Sterkari er sú röksemd forsætisráðherra, að þjóðartekjur hafi haldið áfram að minnka og séu nú 1-2% minni en þær voru, þegar samið var í vetur. Þess vegna er eðlilegt, að þjóðin sætti sig við 1-2% lakari lífskjör en samið var um í samningunum í febrúar í vetur.

Þegar litið er á hinar lágu tölur, sem raunverulega felast í ágreiningi þeirra, sem um málið deila, verður ekki betur séð en að samkomulag eigi að geta náðst, án þess að vinnufriði sé spillt í haust. Málið snýst mest um, hvort taka eigi tillit til 1-2% rýrnunar þjóðartekna.

Jónas Kristjánsson

DV