Stöðnun er dýr í rekstri.

Greinar

Varið er í sumar 116 milljónum króna til að leggja sjálfvirkan síma í 620 sveitabæi. Það eru um 130 þúsund krónur á hvern síma. Þetta er lítið dæmi af mörgum um hinn mikla mun, sem er á kostnaði við fjárfestingu í sveitum annars vegar og ýmiss konar þéttbýli hins vegar.

Miklar fjárhæðir eru lagðar í vegagerð, sem ekki þjónar samgöngum milli þéttbýliskjarna. Mörg dæmi eru um, að dýrar brýr hafi verið smíðaðar til að bæta samgöngur til eins eða tveggja sveitabæja. Stundum sitja brýrnar einar eftir, því að fólkið hefur flutt í kaupstað.

Margfalt dýrara er að leggja hitaveitu í strjálbýli en í þéttbýli. Hið opinbera hefur einnig á því sviði komið til skjalanna. Í ár er varið af fjárlögum 230 milljónum króna til niðurgreiðslu á rafhitun til viðbótar við olíustyrkina og aðra jöfnun hitakostnaðar.

Hið sama gildir auðvitað um rafmagnið. Þar er að vísu brúsinn ekki borgaður af ríkinu sem slíku, heldur af rafmagnsnotendum í þéttbýli. Þeir greiða verðjöfnunargjald, en slík gjöld hafa einmitt mjög verið í tízku hjá landsstjórninni á undanförnum árum.

Þegar lagðar eru saman upphæðirnar, sem felast í verðjöfnunargjöldum á notendur, liðum á fjárlögum ríkisins og eigin umframkostnaði þeirra, sem búa í strjálbýlinu, er auðvelt að skilja, hvers vegna allir þessir aðilar eru svo peningalausir, sem raun ber vitni um.

Þungbærasti herkostnaður þjóðarinnar af viðhaldi byggðar í strjálbýli felst í hinum hefðbundna landbúnaði með kýr og kindur. Ríkið styrkir hann með 1.500 milljón króna uppbótum, niðurgreiðslum og öðrum styrkjum. Þetta er nærri tíunda hver króna á fjárlögum.

Stuðningurinn við hefðbundna landbúnaðinn einn út af fyrir sig jafngildir því, að á fimm ára fresti væri reist tveggja milljón króna íbúð yfir hvern einasta bónda, til dæmis í þéttbýlinu. Er þá ótalinn eigin fjárfestingarkostnaður hefðbundinna bænda.

Af þessum tölum má sjá, að kostnaður af flutningi fólks úr strjálbýli í þéttbýli er skiptimynt ein í samanburði við kostnaðinn af viðhaldi byggðar í strjálbýli. Á örfáum árum má greiða niður slíkan herkostnað með sparnaði á kostnaði við að halda úti dreifbýli.

Það er gert í eitt skipti fyrir öll að reisa íbúð í þéttbýli, tengja hana þjónustu þéttbýlisins og útvega atvinnutækifæri í þéttbýli. Niðurgreiðslur á orku, verðjöfnunargjöld og opinberir styrkir til dreifbýlis halda hins vegar áfram ár eftir ár og fara raunar vaxandi.

Sem dæmi um hina trylltu smábyggðastefnu, sem hér er rekin, má nefna, að Orkustofnun hefur eytt peningum til að reikna út, að það kosti 1.200 milljónir króna að bora 65 kílómetra vegagöng í fjöll. Framkvæmdastjóri byggðamála telur slíka iðju vel koma til greina.

Smábyggðastefnan er krabbamein í þjóðfélaginu. Hún kemur í veg fyrir, að þjóðin geti brotizt til álna og velmegunar. Hún kemur í veg fyrir þá röskun, sein er nauðsynleg hverju þjóðfélagi, er vill verða þátttakandi í framtíðinni. Hún ber dauðann í sér.

Íslenzkt þjóðfélag varð til fyrir röskun í öðrum löndum. Gott gengi okkar á fyrstu sjö áratugum þessarar aldar stafar af röskun, fólk flutti úr strjálbýli í þéttbýli. Eftir búsetustöðnun áttunda áratugarins er nauðsynlegt að horfa til framtíðarinnar á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson.

DV