Danska sendiráðið brá hart við, þegar starfsmaður um borð í dönsku herskipi hafði í ölæði unnið spjöll á reykvískum skemmtibáti. Það fékk skaðann bættan af opinberri hálfu, þótt áhöld væru um, hvort slíkt væri skylt. Auk þess bauð sendiherra tjónþola í mat með danska forsætisráðherranum.
Með þessu framtaki hefur sendiráðið eflt álit Danmerkur hér á landi. Það hefur snúið óþægilegu máli sér og landi sínu í hag. Starfslið þess hefur sýnt, að utanríkisþjónusta getur verið annað og meira en hefðbundinn menúett prótókollstjóra, sem snúast um sjálfa sig.
Franski sendiherrann hefur ekki staðið sig eins vel í starfi og hinn danski starfsbróðir hans. Franskir einstaklingar urðu að grípa fram fyrir hendur hans og bæta ungum drengjum bolta, sem hafði villzt inn á lóð sendiherrans og hann vildi ekki skila.
Ekki var nóg með, að franski sendiherrann vildi ekki skila boltanum. Þar á ofan kvartaði hann við utanríkisráðuneytið yfir framferði drengjanna, sem misstu boltann inn á lóðina. Af öllu þessu hefur hann orðið að maklegu aðhlátursefni í fjölmiðlum.
Franska sendiráðið hefur á liðnum árum oftar en einu sinni komizt í fréttir og þá sjaldnast á jákvæðan hátt. Lögreglan hefur til dæmis þurft að hafa afskipti af drukknum sendiráðsmönnum undir stýri. Þeir hafa jafnan hlaupið í fang hinnar diplómatísku friðhelgi.
Gera má ráð fyrir, að máttugt ríki eins og Frakkland telji sér skylt að hafa sendiráð í öllum ríkjum heims, jafnvel þótt verkefni margra slíkra sendiráða séu næsta lítil. Tímanum er þá eytt í hinn hefðbundna menúett, ef eigin málstaður er ekki beinlínis skaðaður, svo sem hér hefur gerzt.
Íslenzka utanríkisþjónustan getur lært af hyldýpinu, sem er á milli framgöngu danska og franska sendiherrans hér á landi. Hún þarf að gæta þess að halda sér við efnið, en leiðast ekki út í hinn innihaldslausa menúett, sem víða er stiginn á þessum vettvangi.
Sérstaklega ber að varast að kosta miklu til að halda uppi formsatriðum í samskiptum við fjarlæg utanríkisráðuneyti. Það hefur því miður færzt í vöxt, að sendiherrar á nytsamlegum stöðum séu látnir sóa tíma og fé í viðamiklar reisur til fjarlægra staða.
Íslenzkur sendiherra varði öllum febrúarmánuði þessa árs til að afhenda embættisskilríki sín í Nýju Dehli og stíga flókinn menúett, sem slíku virðist fylgja. Þar heimsótti hann meðal annars sendiherra ýmissa erlendra ríkja og bauð þeim til sín á móti.
Þess á milli var rætt um fjarstæðukennd atriði eins og gagnkvæm skipti á ferðamönnum, indverska þátttöku í álveri á Íslandi og íslenzka þátttöku í kaupstefnu í Indlandi, norrænt hús í Nýju Dehli, auk fróðlegra skoðanaskipta um gagnsemi Cambridge-háskóla.
Íslenzka sendiherranum, öðrum sendiherrum og indverskum embættismönnum hlýtur að hafa leiðst þessi menúett, sem allir stigu af stakri skyldurækni. Ef svo eitthvað kemur fyrir Íslending í Indlandi, mun hann hér eftir sem hingað til leita ásjár danska sendiráðsins.
Fámenn þjóð verður ekki bara að gæta þess að hafa ekki neikvæða utanríkisþjónustu eins og Frakkar hafa hér á landi, heldur að forðast einnig tilgangslausan menúett í fjarlægum löndum. Hún á að vera þar, sem hagsmunir eru í húfi, og þá eins skjótráð og danski sendiherrann á Íslandi.
Jónas Kristjánsson.
DV